Vorveiðin er að bresta á

Þótt ótrúlegt megi virðast í þessu lægðarfargani sem lemur á okkur, þá er að koma vor. Og vorið boðar veiði –  það eru ekki nema 19 dagar þar til fyrstu ársvæðin okkar opna.

Við eigum í handraðanum marga skemmtilega kosti í vorveiðina, bæði með og án húss.

Fyrst ber að telja silungsveiðina í Ásgarði í Soginu sem opnar 1.apríl. Menn elska að eltast við dyntótta bleikjuna og stöku sjóbirtingur hrekkur líka á færið. Munið bara að sleppa blessuðum hoplaxinum.

Um helgar og dagana fyrir almenna frídaga fylgir hið glæsilega hús – Ásgarður með leyfunum. Pakkinn kostar þá 28.500 á dag eða 57.000 helgin.  Það er ekki mikið fyrir eitt glæsilegasta veiðihús landsins og þrjár stangir í ánni. Virka daga kostar eingöngu stöngin 5000 krónur.

Ásgarður silungur

Næst viljum við benda á vorveiðina í Blöndu sem opnar 15.apríl.  Blanda er þekktust fyrir laxfiskana en staðreyndin er samt sú að hægt er að gera mjög góða silungsveiði í ánni. Einungis eru fjórar stangir í Blöndu í vorveiðinni og því afar vel rúmt um hverja stöng. Stöngin í Blöndu kostar litlar 4500 krónur. Ef menn vilja skella sér með hópnum yfir helgi getum við reddað gistingu í veiðihúsinu við Svartá fyrir aukagjald.

Blanda silungur

Að lokum er það Tungufljótið góða í Biskupstungum sem opnar 1. apríl. Urriðaveiðin í fljótinu hefur farið vaxandi síðustu ár og margir eru farnir að læra inn á fljótið og gera þar góða veði. Fljótið er kjörið í dagsferð og leyfin eru á aldeilis fínu verði eða krónur 4500 stöngin.

Tungufljót silungur

Við vildum svo að lokum minna á Vildarklúbbinn okkar. Hann dælir reglulega út áhugaverðum tilboðum.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is