Veiðisaga: Var hann sá stærsti til þessa?

Við fáum einstaka sinnum skemmtilegar veiðisögur frá veiðimönnum og í dag barst okkur ein frá Þorleifi Pálssyni, en það nafn ættu flestir að þekkja sem sækja Langadalsá eða Hvannadalsá á Vestfjörðum.

Þorleifur lenti í sannkölluðu ævintýri í Langadalsá í sumar sem hann segir hér frá:

„Ég er mjög svo staðbundinn stangaveiðimaður og veiði einkum í ám við Ísafjarðardjúp, það er í Langadalsá, Hvannadalsá og Ísafjarðará. Síðustu tuttugu til tuttugu og fimm árin hef ég aðeins veitt á flugu og hanna og hnýti sjálfur mest af þeim flugum er ég nota, bæði fyrir lax- og silungsveiði.

Vorið 2015 hnýtti ég nýja flugu, sem er frekar skrautleg með bjartan blágrænan búk vafinn með silfurvír, ljósblátt skegg, silfur- og bláspegluð kristalhár undir svörtum væng með kinnar úr frumskógarhanafjöðrum og dumbrauðan haus. Þessi fluga reyndist strax vel í Langadalsánni og var fyrst um sinn skráð undir heitinu ónefnd.

Um miðjan ágúst s.l. sumar gafst mér kostur á að veiða í Langadalsánni eitt síðdegi, en góður gangur hafði verið í veiðinni allt frá miðjum júlí.   Ég hóf veiðar í svonefndum Stórabug og ekki leið á löngu að ég hafði landað þar 5-6 punda nýrunnum laxi á fluguna ónefndu. Ég flutti mig svo um set að miðbrú árinnar, en yfir Langadalsá liggja þrjár brýr. Miðtrúin er gömul bogabrú og varð 100 ára á þessu ári 2015. Bæði fyrir ofan og neðan brúna eru góðir veiðistaðir og henta einkar vel til fluguveiða.

Ég hóf nú að kasta flugunni í Brúarfljótið fyrir neðan brúna, en áður hafði ég litið yfir svæðið og sá að þar var þó nokkuð af laxi. Í þriðja eða fjórða kasti tók í fluguna og var það einna líkast sem hún hafi fests í einum af mörgum allstórum steinum sem eru í fljótinu, allt var fast. Ég strekkti því vel á línunni ef vera mætti að flugan losnaði. En þá byrjaði ballið !!

´Neðribrúarfljót og Gunnlaugsbrot. 2015

Neðribrúarfljót og Gunnlaugsbrot 2015

Tekið var á móti mér af miklum þunga en engum asa og var vonlaust að halda eitthvað við þann er togaðist nú á við mig. Ég hafði einhvern tíma lesið að þannig tækju stórlaxar á móti veiðimanninum hafi þeir látið glepjast. Flugan sem var undir var sú ónefnda, þríkrókur nr. 12 og flugutaumurinn var aðeins 10 pund í oddinn því laxarnir sem voru að veiðast síðustu daga voru að jafnaði 4-6 pund.

Smám saman þyngdi ég átakið á stönginni sem var Loop stöng fyrir línu 7-8 og 9 feta. Er við höfðum togast á í einar 15-20 mínútur, án þess að færast úr stað, velti laxinn sér örlítið og sá ég þá fyrst hversu stór fiskur þetta var og gerði mér jafnfram grein fyrir því að möguleiki minn til að vinna þennan bardaga var ekki mikill. En vonin býr í brjósti allra veiðimanna. Ég var einn engin vitni og hver trúir veiðimönnum er þeir segjast hafa barist við tröll, en tapað að lokum.

Ég á sumarbústað í Langadalnum ekki langt frá þessum veiðistað og hringdi því í konu mína Guðlaugu og bað hana að koma til að votta að ég hafði trúlega sett í þann stærsta nokkru sinni og var hún fljót til og mætti á bakkann.

Næstu tvær klukkustundir þumbaðist ég við laxinn, en í raun var hann alltaf með völdin, en var þó aðeins farinn að hopa undan straum og sá ég hann gapa og velta sér aðeins á hliðina stöku sinnum. Stöngin var í keng og ótrúlegt hvað þessar spírur þola. Laxinn leitaði meðal annars skjóls við stóran stein í miðri ánni og að sögn konu minnar stóðum við andstæðingarnir í 40 mínútur sitt hvoru megin við steininn og ég upp í mitti úti í ánni.

Þegar hér var komið sögu hringdi konan í félaga minn, sem var að veiða ekki svo fjærri frá okkur og bað hann að koma ef svo færi að ég þyrfti hjálp við að landa laxinum, hún myndi ekki treysta sér til þess. Félaginn minn Siggi Marri frá Hólmavík og Sigurrós kona hans voru nú komin til okkar. Laxinn var farinn að hopa aftur frá 40 mínútna steininum og kominn niður í svokallað Gunnlaugsbrot, sem er um það bil 150 metrum neðan við tökustaðinn. Þegar laxinn var kominn alveg niður á brotið í þessum hyl kom greinilega í ljós að hann var trúlega 25-30 pund ef ekki stærri að mati Sigga Marra. Þá náðist mynd á síma af sporði og veiðiugga hans er hann stakk hausnum niður í botn neðst á brotinu.

Kletts og Klapparhylur 2015.

Kletts og Klapparhylur 2015

Nú voru liðnir einir þrír tímar síðan laxinn tók fluguna og hafði bardaginn borist eina 300 metra niður ána úr Brúarfljóti, niður Gunnlaugsbrot og Klettshyl og kominn niður í Klapparhyl. Lítið var farið að draga af laxinum þrátt fyrir að ég gæfi honum engan frið, en sjálfur var ég farinn að þreytast verulega í stangarhendinni.

Það verður að viðurkennast að ég réði bókstaflega ekkert við þessa skepnu og gerði mér grein fyrir því að á 10 punda taum yrði honum ekki landað.

Laxinn var nú um fimm metra frá mér er hann tók mjög þungt í og vildi þvera Klapparhylinn og tók ég þá ákvörðun um að nóg væri komið og hélt fast við tröllið og tók áhættuna, en að sjálfsögðu brann taumurinn í hnútnum við fluguna og samskiptum okkar var þar með lokið.

Álfurinn 1.

Flugan Álfurinn hönnuð af Þorleifi Pálssyni

Tröllið fór með hina ónefndu flugu og taldi ég þá að við hæfi væri að hún fengi nafnið Álfurinn. Tröllið og álfurinn höfðu tekist vel á og sættust að lokum á að yfirgefa mig og leita á vit þess óþekkta í ferskum straumum Langadalsár.”

Þorleifur Pálson,

Í Lundi, Langadal.