Veiðisaga frá Syðri Brú

Hann Magnús Baldvinsson sendi okkur frásögn af veiðiferð sinni í Syðri Brú í sumar. Óhætt er að segja að hann hafi lent í ágætis veiði miðað við aðstæður. Okkur þykir þó ákaflega leiðinlegt að heyra af sóðaskap og notkun ólöglegs agns á svæðinu. Langflestir veiðimenn okkar eru til algerrar fyrirmyndar og við eigum ekki að þurfa að brýna fyrir mönnum að ganga vel um og vera heiðarlegir í sínum veiðiskap.

Gefum Magnúsi orðið:

 “Ég fór að veiða í Syðri Brú í byrjun ágúst.  Hef litla reynslu frá þeim stað, einu sinni veitt þar áður  kvöldpart fyrr í sumar og tókst þá  að setja í fisk sem ég missti niður í flúðirnar. Það var fallegt veður og mikill hugur í mér þegar ég lagði á stað eftir vinnu austur fyrir  fjall. Á leiðinni sá ég menn við veiðar við Þrastalund og Alviðru og skildist mér að þeir hefðu ekki orðið varir og veiði dræm í sumar á  þessum svæðum.

  Ég var heldur vonminni þegar ég byrjaði að kasta um sjöleitið. Ekki var umgengni fyrri veiðimanna til að auka á ánægjuna, bjórdósir,  sígrettupakki og girnisflækjur ásamt ólöglegum veiðarfærum lágu við hleðsluna og á bakkanum auk stórrar þýskrar snældu með  keiluhaus. Það var því ljóst að þarna höfðu menn verið að nota stóru græjurnar og féll ég í þá sömu gryfju. Ég kastaði með sökktaum  og stórum  flugum af ýmsum gerðum án þess að verða var. Ég tók nokkur rennsli í viðbót en hætti um hálf tíu og fór upp í sumarhús  mitt sem liggur skammt frá.

 Morguninn eftir var spenningurinn í lágmarki og var ég ekki mættur fyrr en um níu leitið. Ég hugsaði á leiðinni hvaða aðferð ég ætti  að byrja á. Kannski er maður orðinn of einhæfur eftir að hafa mest veitt í Rangánum með sökktaum, stórar flugur og „dauðarek“ að  vopni.

 Mér var hugsað til þeirra aðferða sem mér var að kennt að nota í nettari ám hér árum áður, á „árum boðsferðanna“ þegar ég var svo  heppinn að fá leiðsögn frá mönnum eins og Helga Guðbrandssyni, Valgarði Ragnarsyni og Jóhanni Hafnfjörð sem kenndu mér  undirstöðuatriði fluguveiði. Það var því ákveðið að prófa það sem þeir predikuðu, grennri og lengri taum,  litlar flugur og svo að  sjalfsögðu að „strippa“ stutt og hratt eða „ strip like crazy“ eins og einn þeirra sagði gjarnan.

 Það var eins og við manninn mælt eftir fáein köst sýndi sig lítill hængur og um hálftíma síðar voru hjónin kominn á land u.þ.b. 64 og  67cm. Þriðji laxinn sýndi sig einnig og var hann mun vænni en hinir en ekki tókst mér að fá hann á krókinn fyrir kl 13.

 Það var því heldur léttara yfir mér á bakaleiðinni eftir að hafa náð 2 af 18 „skráðum“ löxum sumarsins hingað til á Syðri Brú. En það  má velta fyrir sér hvort þeir laxar sem veiðast á maðk séu skráðir sem flugulaxar eða sem líklegra er, hreint ekkert skráðir.”

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is