Veiðireglur í Blöndu og Svartá

Kæru veiðimenn,

Fyrir tímabilið breyttum við veiðireglum á öllum svæðum í Blöndu og Svartá. Eitthvað hefur borið á því að menn misskilja veiðireglur sem getur valdið leiðindum. Langflestir veiðimenn eru til fyrimyndar og við þökkum fyrir það.

Við viljum minna menn á að kynna sér reglur á vefsíðum viðkomandi ársvæða til að forðast leiðindi. Í stuttu máli eru reglurnar þessar:

Blanda svæði eitt: Kvóti sex laxar á stöng á vakt, ekki má færa kvóta milli vakta. Eingöngu er leyfð fluguveiði á Breiðunni fram að yfirfalli. Hætta skal veiði eftir að kvóta er náð, ef menn vilja veiða og sleppa skal skilja einn lax eftir af kvóta. Við hvetjum menn til að sleppa stórlaxi

Blanda svæði tvö og þrjú: Kvóti er þrír laxar á stöng á vakt, ekki má færa óveiddan kvóta milli vakta. Hætta skal veiði eftir að kvóta er náð, ef menn vilja veiða og sleppa skal skilja einn lax eftir af kvóta. Við hvetjum menn til að sleppa stórlaxi.

Blanda svæði 4: Eingöngu fluguveiði leyfð með flugustöngum, kaststangir bannaðar. Kvóti er þrír laxar á stöng á vakt, ekki má færa óveiddan kvóta milli vakta. Skylt er að sleppa öllum laxi yfir 70cm.

Svartá: Eingöngu fluga með þar til gerðum flugustöngum, kaststangir eru bannaðar við ána. Skylt er að sleppa öllum laxi yfir 70cm. Kvóti er tveir laxar á stöng á vakt, ekki má færa kvóta á milli vakta.

Svo mörg voru þau orð….

Afar vel hefur gengið  við veiðar í Blöndu í sumar og flestir hafa farið ánægðir heim. Við settum þessar reglur til að reyna að hlífa stórlaxinum að einhverju leiti og til þess að meira af fiski sé eftir í ánni fyrir fleiri að njóta. Eitt er víst, dauður fiskur veiðist ekki aftur og ekki hrygnir hann í frystikistunni. Við biðjum ykkur að hjálpa okkur með að ganga vel um árnar og stunda veiðarnar af hófsemi og tillitssemi. Þannig verða allir ánægðir þegar heim er farið.

Veiðikveðja

Starfsfólk Lax-Á , Veiðifélag Blöndu og Svartár, Veiðivörður í Blöndu og Svartá