Um opnunarhollið í Blöndu 1

Eins og menn vita opnaði Blanda að morgni þess 5. Júní. Við vorum áður búin að gera fyrsta deginum skil en ætlum nú að flytja fréttir af því hvernig hollinu reiddi af í heild.

Fyrsta laxinn veiddi Reynir M Sigmunds úr Dammi að sunnan kl 7: 15 og fyrsta daginn veiddust 15 laxar úr ánni og var veiðin vel dreifð.

Annan daginn var veðrið að stríða mönnum, en skollin var á ísköld norðanátt og hefur það líklega haft eitthvað að segja um tökuna,   níu laxar veiddust þó á degi tvö.

Síðasta morguninn veiddust svo sjö laxar samkvæmt áræðanlegustu heimildum og endaði opnunarhollið því í 31 laxi. Það er ekki mjög langt frá spá undirritaðs upp á 27 stykki.

Þetta er fín opnun í Blöndu og meira í ætt við það sem meðalár er að gefa. Ekki er hægt að bera þetta saman við opnunina í fyrra því það mun seint gerast aftur að 99 laxar veiðist í opnun.

Tímabilið í fyrra var líka mjög skrýtið og má segja að „præm tæm“ á svæði eitt hvafi verið í júní ,en svo hægðist um í júlí þar sem smálaxinn vantaði.  

Ég spái því að þetta ár verði venjulegra með hæfilegu magni af tveggja ára laxi en sterkum smálaxagöngum.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is