Stuðið er hafið í Stóru Laxá

Um leið og rigndi fór fiskur að huga sér til hreyfings og þá varð fjör á svæði I-II í Stóru Laxá. Pierre Affre og félagar lentu í þeirri gleði að vera á svæðinu þegar stuðið hófst fyrir alvöru nú fyrr í vikunni, þeir fengu 18 laxa á fimm klukkutímum þegar takan var sem best.

 Þetta var mest allt alvöru fiskur yfir 80cm og þar af einn 101cm hlemmur sem sjá má á meðfylgjandi mynd! Hollið sem tók við fékk svo 32 laxa á einum degi! Og nú í morgun komu á land tveir drekar 102 og 105 cm! Stóra Laxá geymir svo sannarlega stóra laxa.

Við heyrðum einnig í veiðimönnum sem voru að klára á svæði IV. Þar var ekki alveg sama fjörið en þeir sáu þó fisk á Hólmabreiðu, Myrkhyl og einn hrökk á land í Heimahyljum. Hollið sem tók við af þeim var komið með tvo laxa eftir einn dag.

Við höfum því miður ekki nýlegar fréttir af svæði þrjú en bætum vonandi úr því fljótlega.

Stóra Laxá var í gær komin í 320 laxa, sú tala á eftir að hækka töluvert í september ef við þekkjum hana rétt.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is