Stangarbrjótur í Tungufljóti

Í Tungufljóti hefur verið kropp í sumar. Það er fiskur á svæðinu en ekki mikið af honum líkt og raunin er því miður víðar á landinu.

Skráningum hefur verið örlítið ábótavant en veiðin er í kring um þriðja tug laxa í sumar. Lang mest hefur verið tekið neðan við fossinn Faxa.

Við heyrðum fyrr í sumar af breskum veiðimönnum sem höfðu landað laxi yfir 20 pund og sleppt aftur í ána. Sá fiskur er enn að hrella veiðimenn í ánni, því við höfum heyrt fleiri sögur af þeim hrekkjalóm. Nema ef vera skyldi að fleiri fiskar í yfirvigt leynist undir yfirborðinu?

Við heyrðum í veiðimanni sem sagðist hafa sett í skrímsli á breiðunni sem gerði sér lítið fyrir og braut einhenduna hans og kvaddi með glotti. Síðar heyrðum við í öðrum veiðimanni sem skrapp í vikunni og setti í lax sem hann áætlaði yfir 20 pund við steininn hjá Faxa. Hann var með hann á í töluverðan tíma áður en sá stóri hafði betur með því að láta sig gossa niður flúðirnar.

Það er því ljóst að menn geta aldeilis lent í fjöri í Tungufljóti!

Við viljum biðja veiðimenn að hjálpa okkur að byggja upp ána með því að sleppa fiski í klakkistu við Faxa. Að launum fá þeir reyktan lax staðinn.