Skemmtileg uppákoma við Blöndu

Veski_a_sunray-_web

Þórður Sigurðsson og Kiddi voru við leiðsögn í Blöndu að aðstoða hóp Spánverja. Þeir veiddu ágætlega að sögn Þórðar enda mikið af fiski að ganga í ána. Þórður sendi okkur eftirfarandi línur og er ljóst að það hefur verið mikill hasar og gleði við bakkann:

„Ég var á Breiðunni norðan megin og Kiddi sunnan megin. Minn kall setur í fisk og byrjar að spila hann. Ég sé að kallinn hans Kidda setur í lax sunnan megin þannig að það er allt að gerast við bakkann. Fljótlega átta ég mig á því að ekki er allt með felldu. Þeir voru sem sagt báðir með lax og línurnar lágu samsíða í vaff eftir miðri breiðunni. Veiðimaðurinn sem Kiddi var með gaf þá slaka og tókst okkur að landa fiskinum stuttu seinna. Þá kom í ljós að sá sem var sunnan megin hafði húkkað í belginn á fiskinum þannig að þeir voru að togast á um fiskinn. Þetta var 5 kílóa hrygna þannig að ekki var um smálax að ræða. Margt skrítið sem gerist við árbakkann“.

Svo mörg vou þau orð. Þórður sagði okkur líka frá óvenjulegum feng, en þeir veiddu líka gamalt og slitið veski. Veskið tók Sunray!

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is