Risalax veiddist í Bretlandi

Þegar menn hugsa um laxveiðar er fyrsta landið sem kemur upp í hugann líklega ekki Bretland. Ja, allavega ekki svona í seinni tíð. En Bretar eiga sínar ár sem hafa að geyma laxfiska. Flestar þeirra mega muna sinn fífil fegurri en síðustu ár hafa þó margar ár verið á uppleið aftur eftir átak í umhverfisvernd og ræktun.

Síðuritara rak í rogarstand í vikunni þegar hann rakst á frétt af ákaflega heppnum veiðimanni í Bretlandi. Sá var við veiðar í ánni Avon í Hampskíri (Hampshire) en næsta stórborg þar um slóðir er Southampton. Kappinn gerði sér lítið fyrir og setti í stærsta lax sem hefur veiðst þar  í 45 ár.

Laxinn var 48 tommur að lengd eða 122 cm. Fisknum var að sjálfsögðu sleppt en samkæmt kvarðanum ætti hann að vera 47.5 pund.

12671876_1984101511815568_3384028681515090400_o

En þetta var ekki búið. Eftir að skjálfandi skælbrosandi veiðimaðurinn hafði skellt í sig viskídrammi og jafnað sig fór hann aftur niður að á. Þar setti hann í og landaði öðrum fiski yfir tuttugu pund. Þetta þykir svo ótrúleg heppni á sama deginum þarna um slóðir að gantast var með hvort hann gæti sagt mönnum lottótölurnar um næstu helgi.

Þetta verður gott stórlaxasumar!

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is