Netaveiði aflögð í Hvítá og Ölfusá 2019

Á aðalfundi  Veiðifélags Árnesinga þann 26.04 var eftir kosningu fundarstjóra borin upp tillaga frá Drífu Kristjánsdóttur um að eingöngu skuli veitt á stöng á vatnasvæðinu öllu frá og með sumrinu 2019.  

Eftir nokkuð líflegar umræður var tillagan samþykkt með 88 atkvæðum gegn 68, 10 atkvæði voru ógild.

Eftir sem áður mega landeigendur að sjálfsögðu nýta veiðirétt sinn en aðeins til stangaveiða.

Á fundinum var einnig kosið um eitt sæti í stjórn  og var Árni Baldursson var kosinn nýr inn í stjórn veiðifélags Árnesinga.  

Þetta er ein stærsta verndaraðgerð sem gerð hefur verið frá upphafi fyrir laxastofninn á vatnasvæðinu og má ekki seinna vera. Sem dæmi má nefna að laxastofninn í Soginu er kominn að fótum fram en eingöngu veiddust 118 laxar á öllum svæðum árinnar síðasta sumar.  

Leigutakar í Soginu hafa fyrir sitt leiti gert allt sem þeir geta til að bjarga stofninum í ánni með því að takmarka agn og setja sleppiskyldu á allan lax. Ljóst er þó að meira þarf að koma til og mun upptaka neta án vafa hafa jákvæð áhrif á stofninn.

Í heildina eru þetta  gríðarlega góð tíðindi fyrir stangaveiðimenn, landeigendur og leigutaka og ljóst að þetta mun glæða stangaveiði til muna á vatnasvæðinu.

Í framtíðinni mun laxgengd aukast og ljóst er að nýjar laxveiðiperlur leynast víða þar sem áður var veitt að mestu í net.

 

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is