Miðdalsá leynir á sér

Ekki er mjög langt síðan Lax-á tók Miðdalsá í Steingrímsfirði á leigu. Lítið var vitað um ána annað en að í hana gengi töluvert af sjóbleikju og nokkrir laxar veiddust þar árlega.

Undirritaður átti því láni að fagna að kíkja í ána part úr helgi síðla í ágúst. Skemmst er frá því að segja að áin kom afar skemmtilega á óvart en það sem átti að vera silungsveiðitúr breyttist í nær hreinræktaðan laxveiðitúr.

Fyrst bera að nefna að húsið er ágætt til síns brúks og þar leið mér mjög vel. Húsið er nýlega uppgert og þar er allt til alls, þó seint væri hægt að tala um lúxus. Það sem skiptir mestu máli er að húsið er kósý og í því er góður andi. Ég svaf eins og steinn.

midals_gil

Í húsinu eru svolitlar upplýsingar um helstu veiðistaði. Ég kannaði fyrst staðina sem eru fyrir neðan hús, fallegir strengir og litlar breiður en varð ekki var þann stutta tíma sem ég eyddi þar. Ég skrölti aftur upp hlíðina og inn í bíl, mig grunaði að besta vonin væri við fossinn.

Til að komast að efri svæðum þarf að keyra yfir brúna og inn dalinn hinum megin við veiðihúsið. Þess má þó geta að oft er ágætis veiði við brúna á sjávarföllum en ég stoppaði ekki í þetta sinn þar sem ég taldi tímanum betur varið ofar í ánni.

Til að komast að efsta merkta stað sem er foss þarf að keyra inn dalinn þar til komið er að vaði yfir ána. Þetta vað er vel fært jeppum og jepplingum ef lítið er í ánni, annars er best að ganga sem leið liggur upp gljúfrið.

Ég keyrði eins og herforingi á mínum fjallajeppling yfir vaðið og fór eins langt inn dalinn og ég þorði. Alveg innst var slóðinn orðinn svolítið torfær og ég þorði ekki að festa mig fjarri mannabyggðum. Þaðan sem ég stoppaði var sirka 10 mínútna labb að efsta þekkta veiðistað sem er hreinlega kallaður foss. Hefst nú veiðin.

Midalsframdal

Ég renndi í fossinn og varð strax var við svolítið af bleikju, enga tókst mér þó að fá til að hanga á. Ég renndi aftur og viti menn, lax. Nýgenginn, tók örgrant og ég náði að landa honum með agnið hangandi á lyginni einni. Ekki virtust fleiri fiskar í tökustuði í fossinum þannig að ég færði mig niður á.

Rétt neðan við fossinn er breiða og þar var töluvert af bleikju sem ég í klaufaskap náði að styggja með því að vaða yfir ána of nálægt fiskunum. Áin er ákaflega lítil og tær og afar viðkvæm.

Midalsfoss

Ég reyndi svo fyrir mér á mörgum stöðum niður gljúfrið án teljandi árangurs en eina og eina bleikju sá ég á stangli. Það var svo eftir töluvert labb sem ég kom að öðrum foss og aðeins minni, ekkert líf var í honum sjálfum en rétt fyrir neðan hann var breiða. Þar fóru hlutirnir að gerast.

Um leið og rennt var í strenginn greip lax, honum var landað og aftur var rennt. Annar tók og loks pattaraleg bleikja allt á innan við 15 mínútum. Eftir þetta tók fyrir töku og ég ákvað að færa mig upp brekkuna til að skyggna hylinn. Ég taldi yfir 10 bleikjur og fimm laxa á þessari litlu breiðu.

En ég var orðinn saddur og dreif mig heim á leið. Miðdalsá leynir á sér.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is