Laxveiðin í Blöndu

Eins og menn vita var Blanda hreint prýðileg í sumar. Áin í heild endaði í 1931 laxi en það er góður árangur í annars slöku ári víðast hvar. Sumarið 2013 (sem flestir veiðimenn minnast brosandi með hlýju) gaf áin 2611 laxa.

Sumarið 2012 (árið sem flestir vilja gleyma) gaf Blanda 832 laxa.  Hæst hefur áin farið í 2777 laxa árið 2010.

Best var veiðin á svæði eitt og þar talaði engin um neinn aflabrest. Á hábjargræðistímanum eða „prime time“ upp á útlensku voru margir að ná kvótanum sem er 12 laxar á dag. Fyrr á tímabilinu var einnig fyrirtaks veiði á svæðinu og það eru fáar ár sem gefa jafn góða veiði snemma tímabils.

Svæði fjögur var einnig í hörkuformi og var þar oft landburður af laxi og slorbros í allar áttir. Veiðin hélst góð allt þar til Blanda fór á yfirfall í blálok ágúst.

Svæði tvö og þrjú voru með ágætum og sumir veiddu virkilega vel. Besti dagurinn á svæði þrjú í júlí gaf til að mynda yfir 20 fiska og Svæði tvö átti marga fyrirtaks daga, þar var Svarthylurinn einna sterkastur.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is