Laxveiðifréttir

Valgerdur_Blanda_17p

Við heyrðum tíðindi af Hróarslæk. Veiðimenn sem voru að klára sínar vaktir fengu tvo eftir túrinn og þar af einn þrettán punda. Þeir sögðust hafa séð fisk á stöðum 14-16 en ekki víðar. Það er því líf í læknum en ekki mikið gengið enn sem komið er. Við bíðum eftir að Hróinn hrökkvi almennilega í gírinn, hann er seinn til lækurinn.

Sogið er fremur rólegt en þó hafa komið skot í Ásgarð og eitthvað hefur rjátlast á land í Syðri Brú. Sogið er þekkt fyrir síðsumarsveiði svo við förum ekkert að örvænta strax.

Blanda svæði eitt er áfram í fínum gír og hún Valgerður gerði sér lítið fyrir og landaði einum 17 punda drjóla. Annar vænn fiskur hafði betur eftir snarpa viðureign. Blanda svæði eitt er komið yfir 1000 laxa og er einungis veitt þar á 4 stangir. Samkvæmt okkar ítrustu útreikningum gera það um 4,3 laxa á stöng á dag. Efri svæðin eru að gefa ágætan afla og hafa kunnáttumenn sérstaklega verið að gera fína veiði.

Hallá hefur verið sérdeilis fín í sumar og flest allir sem hafa dýft í hana hafa uppskorið einhvern afla. Svæðin fyrir norðan virðast almennt vera á ágætu róli svona miðað við ástandið í ár.

Við minnum svo á fréttaleikinn okkar, en allir sem senda okkur fréttir, myndir eða tíðindi af ársvæðum okkar fara í pott sem dregið verður úr 20.september.

Í verðlaun verða tvær stangir í tvo daga í Hróarslæk dagana 24-26 september.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is