Langadalsá er á fínu róli

Samkvæmt nýjustu tölum er Langadalsá við Djúp komin í 470 laxa. Lax er vel dreifður um ána og eru flest holl að fá fínan afla.

Örn Kjartansson var í ánni um síðustu helgi og lét hann vel af veiðinni. Hollið setti í 15 laxa og landaði 10 af þeim, tveir voru yfir 80cm. Laxarnir komu af öllum svæðum.

Við höfum einnig heyrt sögur af löxum í yfirstærð sem hafa sést í ánni og Þorleifur veiðivörður setti í einn slíkan í Klapparhyl. Þorleifur var ekki búinn til stórlaxaveiða og var með nettar græjur og tíu punda taum.

Eftir að hafa verið með flykkið á í klukkutíma ákvað hann að biðja um aðstoð og kallaði frúna á bakkann. Eftir að hafa togast á við laxinn í tvo tíma mætti svo Siggi Marri frá Hólmavík á staðinn til enn frekari aðstoðar.

Ekkert gekk að lempa fiskinn og hann fór sínu fram án þess að nokkuð væri við ráðið. Fiskurinn rauk niður ána og þumbaðist þess á milli. Léttar græjurnar og taumþyngdin gerðu það að verkum að ekki var hægt að taka fast á fisknum og því réði hann algerlega ferðinni.

Oft hafa verið sagðar veiðisögur þar sem sá stóri slapp og oftar en ekki voru þá veiðimenn einir við bakkann. En Þar sem Þorleifi hafði borist aðstoð var hann með tvö vitni á bakkanum. Og við höfum það eftir þeim að fiskurinn hafi ekki verið undir 30 pundum!

Eftir fjögurra tíma baráttu án þess að fiskurinn sýndi nein þreytumerki, leiddist Þorleifi þófið og tók fast á móti.

Nú syndir þessi höfðingi enn í ánni með vel hnýtta flugu frá Þorleifi sem minjagrip í kjaftinum.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is