Í Argentínu er ævintýraleg veiði

Kau Taupen er með frægustu sjóbirtingsveiðisvæðum í heiminum. Fiskurinn þar um slóðir verður ógnarstór og vikulega veiðast fiskar yfir 20 pund, á hverju tímabili veiðast skrímsli á bilinu 27 – 32 pund. Það er ekki að ástæðulausu sem menn leggja á sig langt ferðalag til að komast í svona veislu!

Og í Argentínu er veiðiferðin samfelld veisla. Veiðihótelið við Kau Taupen er fyrsta flokks lúxusgisting sem líkja má við fimm stjörnu hótel. Í húsinu eru 10 tveggja manna herbergi, öll með sér baði. Þar er að finna setustofu með eldstæði og vel útbúinn bar. Gott er að ylja sér við eldinn með lús af einhverju styrkjandi eftir veiðina.

Og maturinn sem boðið er upp á er fyrsta floks með sérstaka áherslu á hið frábæra argentíska nautakjöt sem er heimsþekkt. Eftir matinn má svo fullkomna daginn með því að bregða sér í gufubaðið. Þá er maður vel góður fyrir átökin næsta dag, þetta er svo endurtekið dag hvern í vikutíma. Ekki svo slæmt líf….

En aðalmálið er samt veiðin sjálf. Eins og áður sagði erum við ekki að tala um neina slortitti, þetta eru fiskar í yfirvikt og tuttugu pundarar algengir. Græjur og útbúnaður þurfa að vera til samræmis við veiðivon og er mælt með tvíhendum 12 – 15 fet og hjólum með góðri bremsu og nægri baklínu. Þó er vel hægt að veiða ána á sumum stöðum með einhendu fyrir menn sem vilja alvöru áskorun.  Leiðsögumenn á svæðinu veita að sjálfsögðu nánari upplýsingar og hægt er að leigja stangir á svæðinu sem og allan útbúnað.

Einn leiðsögumaður fylgir tveimur stöngum sem eru saman á svæði, á hverju svæði eru 4-8 veiðistaðir. Reglulegar róteringar eru á mili svæða eins og þekkist á Íslandi. Mjög gott aðgengi er að veiðistöðunum og þægilegt er að vaða ána þar sem það er nauðsynlegt, malarbotn og ekkert klöngur á hálum steinum.

Áhrifaríkustu flugurnar í gegnum tíðina hafa verið stórir svartir strímerar en það gæti líka verið vegna þess að þeir hafa verið mest notaðir, svona svipað og frances fárið á Íslandi um árið þegar annar hvor fiskur var bókaður á þá ágætu flugu. Annars fer val á agni eftir vatnsstöðu og virkar t.d vel í minna vatni að nota púpur, litlar flugur og jafnvel þurrflugur.

Allar nánari upplýsingar veitir Jóhann Davíð – jds@lax-a.is