Fyrstu laxarnir úr Hvannadalsá

Gullin okkar við Djúp, þær systur Hvannadals og Langadalsá hafa verið seinar til þetta árið. Kemur þar helst til að óhemju snjóalög hafa verið eftir veturinn og hefur tekið tímann sinn að færa alla skaflana til sjávar.

En nú horfir betur við og vatn er tekið að sjatna í báðum ánum, Langadalsá er í flottu vatni en samt enn helst til köld. Hvannadalsá er enn mjög vatnsmikil en þó tær og vatn fer minnkandi með hverjum degi.

Það voru þeir félagar Ágúst Heimir og Atli Árdal sem náðu fyrstu löxunum og sendu okkur skemmtilega frásögn af því og myndir:

„Það var gríðarmikið vatn í vikunni sem leið í öllum ám í inndjúpinu. Hvannadalurinn var nánast óveiðanlegur og vatnið kalt það fór þó minnkandi frá þriðjudegi fram á fimmtudag. Við veiddum fyrsta laxinn í Langholtsfljóti, eða í rauninni í ómerktum stað ofan við fljótið á fyrstu vakt. Grálúsug hrygna 75 cm að stærð. Á miðvikudeginum misstum við síðan lax í Djúpafossi í miklu vatni eftir snarpa baráttu og sáum nokkra til viðbótar kíkja niður í rennuna en staldra stutt við þegar þeim var sýnt agn. Á fimmtudagsmorgun settum við síðan í 85 cm hrygnu í Djúpafossi og lönduðum niður í Árdalsfljóti. Það er því hægt að staðfesta að hann var kominn í Hvannadalinn í síðustu viku og það leit vel út með veiði enda vatnið á hraðri niðurleið“.

Djúpið er semsagt vonandi að detta í gang.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is