Fréttir af opnun Blöndu – fjórir á land!

Blanda var opnuð í morgun á slaginu kl 7:00. Tíðindamaður okkar fyrir norðan- Höskuldur Birkir Erlingsson sagði eftirfarandi frétt af opnuninni og tók þessar frábæru myndir:

” Veiði hófst í Blöndu kl.07.00 í morgun og það alveg á slaginu. UM kl.07.20, setti veiðimaðurinn Rúdólf Jósefsson í og landaði skömmu síðar fyrsta laxi sumarsins í Dammi norður. Nánast á sama augnabliki var kominn lax á í Dammi Suður og var honum landað einnig. En fyrsta lax sumarsins veiddi Rúdólf Jósefsson og var þetta 80 cm. hrygna, tekin á maðk. Um kl.09.00 voru 4 laxar komnir á land og þar af hafði leigutaki árinnar Árni Baldursson fengið 2 laxa á Breiðunni að sunnan á fluguna Frigga. Aðstæður til veiða eru hins vegar ekki upp á sitt besta, mikið vatn í ánni og frekar litað.”

Uppfært 15:00. Alls komu 10 laxar á land á fyrstu vaktinni og var sá stærsti 18 pund.