Frábær opnun í Langadalsá

Langadalsá við djúp opnaði þann 24.06 síðastlliðinn. Líkt og víða er raunin þetta árið voru menn búnir að sjá lax í ánni löngu fyrir opnun og meira að segja töluvert af honum.

Enda var opnunin með þeim betri síðustu ár. Opnunarhollið landaði 13 löxum og auk þess láku níu af. Laxinn var vel dreifður um ána, fékkst t.d í Iðusteinum og  Bolla en mesta lífið var í Kirkjubólsfljóti og Túnfljóti.

Þorleifur Pálsson landaði stærsta laxinum í opnuninni,  102cm hnausþykkum hæng úr Kirkjubólsfljóti eftir stranga viðureign. Mynd af hlunknum fylgir með fréttinni.

Við skulum vona að þessi góða byrjun gefi góð fyrirheit fyrir sumarið. Þess má geta að eingöngu tveir dagar eru óseldir í ánni í sumar en við eigum daga í systuránni- Hvannadalsá.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is