Enn er líf í Blöndu

Blanda hefur verið bæði erfið til veiða og lítið stunduð eftir að hún datt í yfirfall síðari hluta ágústmánaðar.

 Veiðitölur hafa verið í samræmi við ástundun og skyggni en aðeins tveir laxar voru bókaðir úr ánni vikuna 3-10 sept. Það er vægast sagt töluvert hrap frá hátíðinni í sumar þegar besta vikan var að gefa vel yfir 300 laxa.

Þó er fullsnemmt að gefa út dánarvottorð á meðan enn lifir ögn af veiðitímabilinu. Til eru þeir sem láta yfirfall ekki stoppa sig í veiðiskap og hafa jafnvel sumir ekki veitt í ánni öðruvísi en hraustlega kakóbrúnni síðsumars. Helst er að laxinn gefi sig við slíkar aðstæður þar sem ár og sprænur renna út í og skapa svolítil skil. Þetta nýttu sér duglegir veiðimenn nýverið sem tóku þrjá laxa í beit Í Svarthyl á einu síðdegi og bleikju og birting að auki.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is