Efri svæði Blöndu opna á morgun

Á morgun þann 20.06 opna öll efri svæði Blöndu fyrir veiði. Við erum ákaflega spennt að fá fyrstu fréttir af svæðunum en við erum nokkuð bjartsýn á góðan árangur. Staðan í vor hefur nefnilega verið þannig að afar lítið vatn hefur verið í Blöndu og stoppar fiskurinn því lítið sem ekkert á svæði eitt og rýkur allur í gegn. Það ætti því að vera töluvert af fiski þar efra í opnun. 

Þó við tölum um lítið vatn í Blöndu þá er það ekkert í líkingu við þurrkana sem herja á ár á vesturlandi. Blanda verður aldrei það vatnslítil að það hamli veiðum og er hún nú í frábæru veiðivatni. 

Afar lítið er í lóninu og það þarf eitthvað mikið að gerast til að Blanda fari á yfirfall á veiðitíma í ár. Við eigum töluvert af leyfum á öllum svæðum í ágúst og september sem eru sannkölluð kjarakaup haldist lónið frá yfirfalli eins og útlit er fyrir.