Blanda er bjútífúl

Eftirfarandi grein birtist í nýjasta tölublaði Sportveiðiblaðsins. Fyrir þá sem vilja alvöru vorveiði í laxinn má benda á að það losnuðu hjá okkur stangir 9-12 júní og svo eigum við eina stöng 15-16 jún á svæði eitt. Annað er uppselt fram í miðjan ágúst.

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is

Fyrstu kynni mín af Blöndu voru ákaflega góð. Ég hafði fyrir langa löngu síðan fest mér dag á svæði þrjú í lok júní. Ég man að leyfið var ákaflega ódýrt og veiðivon var talin lítil svo snemma sumars. En viti menn, ég setti í og landaði mínum fyrsta flugulaxi þennan júnídag. Síðan þá hefur Blanda verið mér ákaflega kær og ég hef alltaf verið á leiðinni aftur. Einhverra hluta vegna hefur ekki orðið af því fyrr en í sumar sem leið. Þá hrökk á færið tveggja daga túr á svæði eitt.

Þann 9. Júní 2015 gafst langþráð tækifæri til að skreppa norður og ekki spillti fyrir gleðinni að þá átti ég afmæli. Alls ekki slæmt að eyða deginum við veiðar í Blöndu, nei barasta hreint ekki slæmt.

Við félagarnir af skrifstofu Lax-Á, undirritaður og Simon Nilson búðarstjóri í Grænlandi lögðum af stað ofurspenntir um hádegisbilið. Við höfðum líkt og aðrir heyrt af prýðilegri opnun í Blöndu og okkur grunaði að eitthvað hlyti nú að hlaupa á færið hjá okkur.

Einhverjar veiðistaðalýsingar hafði ég lesið og einnig rætt við staðkunnuga menn, ég taldi því víst að ég myndi finna réttu staðina án vandræða. En veiðin er sjaldnast svo einföld, það er eitt af því sem gerir þetta svo skemmtilegt.

Blanda bogin stöng

Þegar við komum að Blöndu var áin vel mikil um sig og lituð, það sáust því hreinlega engin skil til þess að geta fikrað sig áfram í vatninu. Gjáin í Dammi að sunnan sást alls ekki og skyggni ofan í vatnið var núll. Ég hafði heyrt að vaða ætti út að gjánni og renna svo með skilunum. Það var ekkí í boði í þessu vatni, við núlluðum að sunnan.

Breiðan að norðan, tók betur á móti okkur. Við fundum nokkurn vegin réttu leiðina að gjánni og gátum því kastað á réttu staðina, svona nokkurn veginn. Það gaf fisk, algerlega nýgenga 84 cm hrygnu sem tók Collie Dog – kón. Þvílíkt stuð! Fiskurinn var svo nýr að hann var blár og algerlega grálúsugur.

Næsta morgun var áin mun skaplegri á að líta og betur gekk að finna réttu staðina í sunnan Dammi. Og þar var lax, sirka í miðjum Dammi, búmm hann var á. Lúsug 82cm hrygna. Þennan morgun töpuðust tveir laxar á Breiðu að sunnan og einn alvöru rumur tapaðist að norðan. Hann tók með offorsi og hreyfði sig svo ekki en hristi hausinn örlítð eins og hann væri pirraður á þessum aðskotahlut. Eftir verulegt átak leiddist honum þófið og tók af stað þannig að söng í hjólinu. Hann synti svo fyrir stein og sleit með það sama. Þetta var alvöru Blönduhöfðingi.

Og það er spennan við að fara í Blöndu, sérstaklega svona snemma sumars. Það eru risar undir, nýgengnir boltar sem eru ekkert lamb að leika sér við og nýta sér straumþunga ána í þokkabót.

Eftir þetta ævintýri var ég viðþolslaus, áin hreinlega togaði í mig. Blanda er ekkert venjuleg á, hún er ekki þessi blátæra íslenska laxveiðiá sem „tifar létt á milli steina“ eins og skáldið orti. Blanda er rumur, vatnsmikil straumþung og lituð.

Og aftur um miðbik sumars hrökk á færið dagur á svæði eitt. Þarna vorum við kominn inn á „præm tæm“. Og þvílík veisla, þvílíkt magn af fiski!

Ég sá strax þegar ég  fikraði mig niður brekkuna frá bílastæðinu að þetta yrði eitthvað. Áin var gerbreytt frá því í sumarbyrjun, hún var töluvert vatnsminni og lítið lituð. Reyndir menn sögðu mér að hún væri hreint óvenjutær.

Og þarna út brekkunni sá ég lax, lax út um allt. Lax í damminum uppi á klöppinni, lax að bylta sér út í miðri á og þegar ég færðist nær sá ég laxatorfu í holunni.

Og við áttum að byrja á suðurbakka, í holu og Dammi suður. Ég gat ekki staðist torfuna í holunni, yfirspenntur klöngraði ég niður á nibbuna sem skagar út í ána til að koma mér í vígstöðu. Ég þræddi „Garden fly“ heiltommu á og renndi svo í strauminn…

Blanda2006 033

Holan er nokkuð skrýtinn en skemmtilegur staður, smá blettur í miðjum straumköstunum sem laxinn virðist kunna vel við og notar sér sem stoppistöð áður en lengra er haldið. Sumir virðast hreint ekki nenna lengra því þarna voru tveir risa höfðingjar sem höfðu hangið við í nokkrar vikur. Fyrr um sumarið þegar ég kom þarna í fyrsta skiptið var ég hreint ekki vis um hvar hún væri þessi hola því þetta var allt samfleitt frussandi vatsnfall og mórautt í þokkabót. En núna þegar áin hafði fölnað og minnkað var þetta kýrskýrt, þar sem  laxatorfan var, þar er holan!

En aftur að veiðiskapnum. Eitt rennsli og búmm, fiskur á eftir mínútu af veiðitíma. En ég var einn, hverning í andsk átti ég að landa þarna? Á meðan ég var að hugsa upp löndunartaktík lak fiskurinn af. Annað rennsli, búmm, aftur á aftur af. Þriðja rennsli, búmm, ég beið lengur til að leyfa honum að melta garðfluguna aðeins betur. Eftir nokkuð þóf og misgáfulegar tilraunir til að landa á sylluna sem ég stóð á kom höfinginn Steini Haff og háfaði kvikindið fyrir mig. Þarna var liðinn sirka hálftími af veiðitímanum og tveir misstir og einn í húsi. Ég ákvað að færa mig í Damminn, það er eitt að setja í en hábölvað að landa einn í Holunni.

Næst var það Dammurinn, ég prófaði Sunray og fékk nokkur högg en ekkert festist. Aftur var Garðflugan þrædd á. Bang, hann var á. Ég sver það ég hélt þetta væri risafiskur, djöflaðist eins og eimreið í straumnum. En kannksi er það straumurinn sem veitir ákveðna hjálp í Blöndu auk þessa virðist áin fóstra eintaklega kraftmikinn stofn. Laxinum var landað, 4 pund – grálúsugur grillfiskur. Og áfram hélt veislan, þetta var næstum of auðvelt. Þvílíkt magn af fiski, þvílík veiði.

opnun 2012.2

Næst áttum við Breiðuna að sunnan og var flugan þanin þar. Fiskur var stökkvandi út um allt og staðurinn pakkaður af laxi. Líklega með betri veiðistöðum á landinu, og ekki er hann ljótur. En á Breiðunni borgar sig að vera góður til gangs og vatnhræðsla er mikið til trafala þar sem vaða þarf fljótið nánanst að miðju.

Dammur að norðan telja margir einna sísta staðinn á svæði eitt en um miðjan júlí fannst undirrituðum hann stórkostlega yfirgengilega æðislegur. Þarna náðist assgoti gott og skemmtilegt rennsli á garðfluguna og fáeinir fiskar fuku á grillið.

Seinni vaktin var nánast eins, lax út um allt og bullandi taka. Þetta var laxveiði í algjörum heimsklassa

Ég fer aftur ef ég get- enítæm. Blanda er bjútífúl

Veiðikveðja

Jóhann Davíð

Markaðs og Sölustjóri Lax-Á

jds@lax-a.is