Af vatnsleysi og veiðiskap

Við höfum verið að hlera menn á okkar veiðisvæðum og eitt helsta umkvörtunarefnið víðast er vatnsleysi. Margar ár eru komnar algerlega ofan í grjót sem gerir veiðar krefjandi og erfiðar. Til að mynda er Leirvogsá illa haldin af vatnsskorti og gengur illa að fá fiskinn til að gína við flugunni. Þar gæti orðið veisla þegar loks fer að rigna þar sem nóg af laxi er í ánni.

Sömu sögu er að segja af Stóru Laxá. Þar bíða menn eftir vatnsveðri til að koma hreyfingu á hlutina eða laxinn réttara sagt. Stóra Laxá er orðin leiðinlega lág í vatnsstöðu og veiðin hefur verið mest í ætt við svokallað kropp. Hennar tími mun koma, það vitum við og vonum fyrir víst.

Blanda og Svartá eru líka í kroppgírnum og ljóst að báðar ár eru ekki að eiga sitt besta sumar. Þrátt fyrir fréttir víða um yfirfall í Blöndu fyrr í mánuðnum bólar hreint ekkert á því og meira að segja hefur lækkað í lóninu.  

Við vorum að uppfæra vefsöluna okkar og má þar finna marga spennandi bita á tilboðsverði. Það er alger óþarfi að setja stöngina inn í geymslu strax. Þetta veiðir sig ekki sjálft.

Endilega kynnið ykkur úrvalið í vefsölunni: Vefsala

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is