Af Stóru Laxá og fleiru

Stóra Laxá er aðeins farin að sýna lit eftir erfiða byrjun. Nú ber svo við að vatn er tekið að sjatna og lax hefur veiðst á öllum svæðum.

Gunnar Másson renndi nýlega á svæði þrjú og tók einn úr Sveinskeri og missti einn í Heljarþrem. Teitur Örlygsson gerði góða ferð á svæði 1&2 og tók 10 fiska í túrnum. Stærsti laxinn var 90cm úr Kálfhagahyl.  Fiskar komu meðal annars úr Bergsnös, Kálfhaga, Kóngsbakka og Skarðsstrengjum. En þetta er líklega fyrsti laxinn skráður úr síðastnefnda staðnum til fjölda ára!

Mest allt var þetta grálúsugt og nýskriðið inn. Við heyrðum líka af góðu skoti á Iðunni í vikunni þannig að svæðið allt er að lifna við.

Af öðrum svæðum er það að frétta að Djúpið er líka að rétta úr kútnum. Í morgun komu þrír grálúsugir smálaxar á land í Langadalsá og einn í Hvannadalsá. Það verður spennandi að sjá hvað gerist upp úr stórstreyminu í dag.

Veiðikveðja,

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is