Af Blönduveiðum

Staðan á Blöndu er svolítið sérkennileg þessa dagana. Undirritaður fór í sína árlegu vorferð í Blöndu þann 9.06 og ég hef hreinlega aldrei séð hana svona vatnslitla áður. 

Holan og Dammur að sunnan halda illa fiski þar sem vatnið er það lítið að hann gengur frekar að norðan. Og í svona litlu vatni er hann hreint ekkert að stoppa þarna niður frá og rýkur í gegn. Veiðarnar eru því nær algerlega byggðar á göngufiski sem er að koma í gegn. Það virðist þó vera sem nokkrir séu sestir að á Breiðunni og kemur líf í þá þegar aðrir bætast í hópinn. 

Veiðin frá opnun hefur verið um einn fiskur á stöng á dag sem er allt í lagi miðað við þessar aðstæður þar sem margir eru misstir. Allt er þetta boltafiskur og að setja í þá er engu líkt þarna í öflugu vatninu. 

Ég átti því láni að fanga eins og áður sagði að veiða þar í tvo daga og hafði tvo stóra feita og pattaralega Blönduhöfðingja upp úr krafsinu. Ég missti að sjálfsögðu þann stærsta en það var fiskur sem ég áætla alla vega 20 pund. Hann hreinsaði sig uppp úr vatninu við hliðina á mér og tók svo roku fram af brotinu þó bremsan væri næstum í botni á hjólinu. Þar sleit hann 22 punda Maxima taum eins og tvinna.  Þennan fisk á mig eftir að dreyma næstu ár.

Blanda á vorin er hreinlega toppurinn!

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is