Hvannadalsá – veiðistaðalýsing

SONY DSC

Hvanndalsá er ákaflega skemmtileg og vinsæl veiðiá við djúp, við endurbirtum hér ágæta veiðistaðalýsingu sem gott er að hafa til hliðsjónar þegar veitt er í ánni.

 

1.       Stekkjarfoss, efsti veiðistaður í Hvannadalsá. Í Stekkjarfossi hafa veiðst margir af stærstu löxum sem fengist hafa í ánni, sérstaklega hafa þeir stóru gefið sig þegar liðið er á sumarið og þá oft í september.

  Staðir milli Stekkjarfoss og Hellisfoss ómerktir á korti; 

1.1 Stekkjarfljót, mjög straumþungt framan af sumri, helst von til að lax liggi þar að þegar líður á sumar og vatn tekur að minnka. Hér liggur lax á nokkrum stöðum ofan og neðan við grjót í fljótinu.

1.2 Pallklettar, hér var oft góð veiði sérstaklega á árum áður. Lax getur bæði legið við steininn sem brýtur á efst eða niður á brotinu.

1.3 Steinbogastrengur, fallegur og veiðilegur hylur en sjaldgæft að lax hafi fengist þar.

2.      Hellisfoss, efri og neðri foss. Neðri fossinn er einn af fallegri stöðum árinnar og hefur oft verið fengsæll veiðistaður en erfiður bæði að komast að og að landa fiski þar. Efri fossinn hefur einnig gefið fisk en oft ganga menn yfir hann þegar þeir koma að Hellisfossi og styggja fiska ef þeir liggja þar. Eftir byrjun ágústmánaðar er alltaf fiskur í Hellisfossi. Laxinn liggur bæði við bergið Rauðamýrarmegin og einnig oft í strengnum við hellinn Tungumegin, sem nafn fossins er dregið af. Sumarið 2003 veiddist vel í Hellisfossi og einnig í fljóti (ómerktum veiðistað) sem myndast hefur þar sem rennur úr fossinum.

3.      Réttarfljót, stutt og straumþungt fljót framan af sumri. Lax stoppar ávallt hér á leið sinni fram Hvannadal, sést vel frá báðum bökkum. þessi veiðistaður er mjög viðkvæmur og mikilvægt að fara varlega að honum, best er að koma að honum niður gilið til þess að styggja ekki fiska. Hægt að veiða staðinn frá báðum bökkum. Sumarið 2003 komu flestir laxar úr Hellisfossi og Réttarfljóti.

4.       Kvörnin (Ármótafoss), hér stoppa laxar oft á leið upp í Lágadalsá eða fram í Hvannadal. Þegar vatn er lítið í Lágadalsá getur lax staldrað hér við og beðið færis til að ganga upp. Laxinn liggur út frá stórum kletti sem stendur við Tungubakkann. Erfitt er að halda færi og ef sett er í fisk þá þarf nær undantekningalaust að elta hann niður í Imbufoss til að finna löndunarstað.

5.      Imbufoss, hér erum við komin að þeim stað sem mörgum hefur fundist hvað fallegastur í Hvannadalsá sérstaklega þegar eðlilegt vatn er í ánni. Liggur í stuttu gljúfri frá ármótum Hvannadalsár og Lágadalsár og niður fyrir réttina á Fossi. Í Imbufossi hafa fengist margir stórfiskar þar sjást laxar vel ef þeir liggja á breiðunni neðan fossins en verði þeir varir við veiðimenn renna þeir sér inn í fossinn og undir hvítfressið. Oftast veiddur frá Rauðamýrar bakka en sumir veiðimenn hafa fyrir vana að standa upp á berginu Tungumegin og renna færinu undir strauminn og niður með berginu.

6.      Imbufljót, fallegt flugufljót. Mjög bjart og því mikilvægt að passa að skuggi falli ekki á fljótið þegar menn koma að því. Ofarlega í fljótinu miðju, til móts við réttina á Fossi, er stór steinn sem að öllu jöfnu er í kafi. Niður undan þessum steini liggur oft lax ef hann er á annað borð í fljótinu. Nokkuð erfitt er að koma færinu að legustaðnum án þess að styggja fisk. Komi menn frá Rauðamýrarbakka þá eru allar líkur til að þeir styggi fisk liggi hann þarna. Einna best er að fara niður í gljúfrið Tungumegin við Imbufoss og koma ofan að fljótinu og langrenna niður að iðunni við steininn. Fiskur á einnig til að liggja fyrir miðju fljótinu út frá svartri klöpp í Tungubakkanum.

7.      Brúarfoss, þessi veiðistaður er nokkuð vanmetinn og margir sem ganga fram hjá honum án þess að renna í hann. Ekki er það ráðlegt enda töluvert oft fengist fiskur í þessum stað og oft hefur hann verið leginn. Tvær rennur koma út úr fossinum. Best er að vaða út á miðjan fossinn til að auðveldara sé að halda færi. Rennan Rauðamýrarmegin liggur töluvert niður fyrir fossinn í nokkurskonar gjá og rétt að láta færið  fara alla leið niður gjánna. Rennan Tungumegin er mun styttri og sameinast hinni neðan við fossinn.

7.1     Rauðbergsfoss, lítill foss ofan við brúnna ekki óalgengt að lax fáist Rauðamýrarmegin.

8.      Rauðbergsfljót, undir brúnni sést oft lax. Veiðimenn ættu ekki að sleppa því að renna í brúarfljótið þrátt fyrir að ekki sjáist lax af brúnni. Oft liggur laxinn í rennunni því sem næst beint undir brúnni og er því vart sjáanlegur af brúnni.

9.      Klapparfoss, lax getur stoppað þarna eftir að hafa stokkið fossinn, ekki ráðlegt að sleppa þessum stað.

10.    Árdalsfoss (Djúpifoss), alltaf lax á þessum stað, sést mjög vel og er því mjög mikið reynt við hann þarna. Fyrst á vorin þegar vatn er mikið í ánni leggst laxinn iðulega við stórann stein Rauðamýrarmegin í ánni. þarna getur lax legið nokkuð fram eftir júlímánuði þar til vatn hefur minnkað og búið er að berja mikið á honum. Laxinn færir sig síðan yfir að Tungubakkanum og liggur þá beint framundan “kíkiklettinum” og sést yfirleitt mjög vel. Laxinn í djúpafossi er oft á nokkuð mikilli hreyfingu enda sér hann veiðimanninn ekki síður en veiðimaðurinn sér hann. Þá rennir laxinn sér oft á milli bakkanna eða hverfur inn í fossinn en kemur alltaf aftur að nokkrum tíma liðnum.  Laxinn á einnig til að leggjast fyrir fossinum miðjum og sést hann þá síður. Löndun getur verið nokkuð erfið frá báðum bökkum og ber að gæta fyllstu varúðar sérílagi þegar fiski er landað frá Rauðamýrarbakka. Stærsti lax sumarsins 2003 18 punda hængur veiddist í Árdalsfossi.

11.  Árdalsfljót, besti flugustaðurinn í ánni, lax sést ekki vel hér og yfirleitt ekki nema hann stökkvi en liggur hér allt frá því hann kemur að vori og fram á haust. Á undanförnum árum hefur þetta verið fengsælasti staður árinnar. Gott er að hafa fyrir venju að byrja við brotið efst í fljótinu og langrenna niður fljótið. Flestir veiða staðinn frá Tungubakka en einnig er mögulegt að veiða frá Randamýrarbakkanum. Aðal legustaðurinn er ofan við steinanna sem brýtur á neðst í fljótinu. Algengast er að veiðimenn standi á eyrinni sem liggur fyrir miðju fljóti og langrenni niður að steinunum. Benda skal veiðimönnum á að fara ekki of skart niður á eyrina því fiskur liggur oft nokkrum metrum neðan við hana út frá Tungubakkanum. Beint út af eyrinni er stór steinn sem yfirleitt er í kafi og við hann leggst oft lax. Þegar líða tekur á sumar eftir miðjan ágúst sést lax oft stökkva út um allt fljót.

12.  Langholtsljót (Langafljót), fallegur flugustaður. Fljótið er nokkuð grunnt og því nokkuð erfitt að koma færi niður það ef byrjað er efst. Það er þó alls ekki ráðlegt að ganga niður bakkann fyrr en búið er að koma færi niður allt fljótið. Oft er þægilegast að kasta flugu á fljótið til að ná að skanna það allt. Legustaðurinn er neðan við stein sem stendur á Tungubakkanum. Laxinn liggur oft aðeins örfáa metra frá bakkanum. Nokkru neðan við steininn á bakkanum er steinn úti í ánni og má segja að lax liggi milli þessa steins og Tungubakkans og niður að horninu þar sem rennur úr fljótinu. Oft hafa veiðimenn gengið bakkann eftir að hafa rennt í fljótið og orðið var við fiska sem styggjast og renna sér frá bakkanum.

13.  Efra-horn. Fljót sem breytir sér iðulega milli ára. Hér stoppar lax oft á göngu upp Hvannadalsá.

14.  Hornhylur (Hornfljót eða Horn) Staðurinn breytist mikið milli ára. Hér reynir því á hugmyndaflug veiðimanna og reynslu að lesa í strauminn.

15.  Neðra horn, hér gildir það sama og um veiðistað 13.

16.  Eyjahyljir, hver hylurinn á fætur öðrum djúpir og fallegir, mjög silungslegir, lax stoppar þó oft á þessum stöðum.

17.  Móhella, sérstaklega þekktur eftir sumrin 1991-1994 þegar nokkrir tugir laxar veiddust á þessum stað.

18.  Neðstafljót, Sjóbirtingsstaður neðsti veiðistaður árinnar liggur allt út í ós langt og mikið fljót, best er að veiða þennan stað á útfalli eða aðfalli, því þá bunkar bleikjan sig saman.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is