Blanda svæði 2 – Veiðistaðalýsing

Svæði tvö í Blöndu hefir vaxið gríðarlega að vinsældum síðustu ár enda er þetta skemmtilegt svæði á góðu verði með fínni veiðivon. Við endurbirtum hér góða veiðistaðalýsingu sem gott er að hafa við hendina:

Til er veiðilýsing í bókinni Blanda og Svartá eftir Gísla Pálsson (2000, bókaútgáfan á Hofi). Sú lýsing er hinsvegar barn síns tíma og ekki nægilega tæmandi. Til að reyna að bæta úr þessu hafa undirritaðir sest niður og fest á blað nokkuð tæmandi lýsingu á því hvernig þieir sjálfir haga veiðum á miðsvæðum Blöndu. Veiðimennirnir eru Þorsteinn Hafþórsson og Stefán Ágústsson og byrjað verður á veiðileiðsögn og ráðleggingum á svæði 2.

Svæði 2 í Blöndu er um margt einkennilegt veiðisvæði, mikið af laxi getur verið þar að finna. Stórir hlutar svæðisins henta mjög vel til hrygningar og hefur seiðaþéttleiki verið góður þar þegar mælt hefur verið. Það má ætla að mikið af laxi haldi til á svæðinu en einnig eru laxar á ferð í gegnum svæðið og upp í Svartá eða efri svæði Blöndu.

Mesta skráða veiði af svæðinu eru rúmir 600 laxar laust fyrir síðustu aldamót og á síðustu 15 árum hefur veiði sveiflast frá 600 löxum og niðurfyrir 100 í lökustu árum. Erfitt er að segja hverju þetta sætir, hvort vorflóð hafi spillt veiðistöðum og nýjir ekki fundist í staðinn eða hvort laxinn sé hreinlega horfinn af svæðinu. Við höfum ekki mikla trú á því síðastnefnda, laxveiði og laxgengd hefur aukist gríðarlega á neðsta svæði Blöndu og einnig á því efsta sem og í Svartá. Það er því ekki svo að laxinn sé horfinn af vatnasvæðinu heldur einmitt hið gagnstæða.

Blanda sv 2, Pasi (13)

Eins er það reynsla okkar sem þekkjum Blöndu vel að þar sé töluvert af laxi, við (greinarhöfundar) upplifum varla laxlausan dag þarna uppfrá. En við þekkjum ána reyndar mjög vel, betur en flestir, og viljlum gjarnan deila með ykkur hvernig við veiðum hana, afhverju við veiðum hana þannig og hvað gefur okkur best.

Vatnsmagn í Blöndu ræðst að langmestu leyti af því hversu miklu er keyrt í gegnum Blöndustöð á hverjum tíma. Á veiðitímabili er algengt að meðalrennsli á dag sé á milli 30 og 40 rúmmetrar á sekúndu – þegar yfirfall stendur sem hæst má reyndar sjá tölur fast að 200 rúmmetrum á sekúndu og þá er nú eins gott að vera ekkert að þvælast út í á.

Hinsvegar er ekki jafnt rennsli kvölds og morgna í Blöndu, og teljum við að þar sé að finna veigamikla skýringu á „laxleysi“ svæðisins. Ekki einungis breytist vatnshæð heldur einnig allt straumlag í hyljum – m.ö.o. má segja að svæði 2 í Blöndu séu 2 mismunandi ár fyrir og eftir hádegi. Alla jafna er mun minna rennsli fyrir hádegi en eftir hádegi og verða menn því að forma sér veiðiáætlun eftir því.

Fyrir hádegi, í minna vatni, hefur okkur reynst best að sækja grimmar á stóru og djúpu breiðurnar sem víða má finna. Þarna má nefna Braggabreiðuna (251) og Strjúgsstaðabreiðu (246) og Holtastaðabreiðu (231), eins er Víkin (270) djúpur og mikill hylur sem heldur alltaf laxi – en best er að þann stað vestan megin frá (af eyrinni), hinir staðirnir eru veiddir þeim megin sem komið er að þeim. Aðrir staðir sem vert er að gefa gaum á morgunvakt eru að sjálfsögðu Svarthylurin og Kvíslarmótin (277 og 276) – en þar er alltaf fiskur. Vaðstrengur (271), Hólmahorn (265) og Eyjarendi (266) – oftast eru þessir seinni tveir einfaldlega nefndir Auðólfsstaðir – eru alla jafna sterkari í meira vatni en vel þess virði að taka eitt rennsli. Vaðstrengur er veiddur af báðum bökkum (farið yfir á bátnum). Á öllum þessum stöðum gefur vel að hafa tommulanga (eða minni) túbu undir og sökkenda, spúnn og maðkur ganga einnig vel á þessa staði – en við notum fluguna nánast undantekningalaust.

DSC00084

Eftir hádegi hefur rennsli oftast aukist og verða veiðimenn því að bregðast við því og endurskoða planið samkvæmt því. Eftir því sem rennsli eykst verða sumir staðir betri og betri, hér má nefna Kláf og Kapalbreiðu (217 og 218), Engjabreiðu (223) og Laxhyl (274). Eins má ekki gleyma Ennisholunni (200) – neðsta stað á svæði 2. Ennisholan er rétt fyrir ofan Ennisflúðirnar og laxastigann og reynslan sýnir að mest af laxinum gengur upp stigann seinnipart dags. Gjöfulasti tíminn í Ennisholunni er á milli 18:00 og 20:00 í sæmilegu vatni. Fyrir utan þessa staði eru svo Svarthylurinn, Kvíslarmótin, Vaðstrengur og Auðólfsstaðir alltaf sterkastir þegar vatnsmagn er umtalsvert. Eins má nefna að við förum gjarnan í Vonina (213) þegar líður á seinni vaktina (milli kl. 18 og 19) og er þá farið niður hjá bænum Köldukinn á vestari bakkanum. Þar er hægt að keyra niður að Kapalbreiðu (sem er í raun Kláfur að vestan) og dóla sér niður með ánni í átt að Voninni – þó verður að labba síðasta spölinn. Þegar fiskur er að ganga fyllist þessi hylur oft af laxi.

En ekki má gleyma öðrum þáttum, mikið sólskin hefur töluverð áhrif á veiði í Blöndu. Þá er um að gera að finna háa bakka sem kasta skugga út í á – slíka bakka má finna við Geitaskarð, í kvíslunum gengt Auðólfsstöðum, við Holtastaði, Skriðuland og Hvamm svo fáeinir staðir séu nefndir. Bestu hugsanlegu skilyrði eru þegar þegar skýjað er og talsvert rennsli í ánni – þá er nánast öruggt að menn setji í fisk á einhverjum þeirra staða sem við lýsum að ofan.

Laxinn á svæði 2 er ekki gjarn á að sýna sig og ættu menn því ekki að örvænta þó þeir sjái ekki mikið líf – laxinn er þarna, það er víst. Svæðið er 25 kílómetra langt og þar eru fjölmargir staðir aðrir en þeir sem hér eru taldir upp og margir þeirra vel þess virði að reyna við. Það verður að segjast að við erum aðeins hikandi við að nefna bara þessa 15 – 20 staði, því það er hætta á að menn einblíni bara á þá og láti hina eiga sig. Þetta eru þó þeir staðir sem við förum mest á, bæði til að veiða sjálfir og eins við leiðsögn og því eðlilegast að þeir séu taldir upp.

Á svæðum 2 og 3 í Blöndu eru engar hömlur á agni aðrar en þær sem í lögum eru, það er sumsé heimilt að beita maðki spún og flugu á þessum svæðum.

Bestu spúnarnir eru þessir hefðbundnu Toby spúar (ABU original) bæði svartir og silfraðir, einnig hefur Devonin reynst ágætlega og hinir norsku Salamader spúnar – sem nú er því miður ekki framleiddir lengur. Best er að nota þá í þyngdum 18 til 24 gr – við mælum ekki með þyngri spúnum (nema menn vilji vera stanslaust í botnfestum). Ef menn vilja nota fluguna samhliða spúnaveiði þá mælum við að sjálfsögðu með því að menn fari fyrst yfir hylinn með flugu.

Maðkur gefur líka vel og best hefur gefið að fara sparlega með sökkurnar, bara rétt nóg til að sökkva til botns. Að þverkasta maðki gefur oft góða raun og þá er sérstaklega mikilvægt að ofþyngja ekki með sökkunum. Alla jafna eru sökkur 50 – 80 cm fyrir ofan krók.

Fluguveiði í Blöndu er stórskemmtileg og gefur ekki síður en maðkur eða spúnn. Í langflestum tilfellum notum við flotlínu með sökktaum, en einnig bregðum við hitchtúbunum undir við og við. Oftast verða túbur fyrir valinu og þá gjarnan í stærðum 1 til 1,5 tomma að lengd. Þær túbur sem alltaf finnast í Blönduboxinu hjá okkur eru rauð og svört frances, þýsk snælda og sunray shadow – þess utan er algengt að sjá black sheep og silver sheep, black & blue, pool fly og ýmsar aðrar sérviskutúbur. Eftir að litur eykst í ánni gefur best að hafa annaðhvort svartar flugur eða appelsínugular – þessir litir virðast vekja mest viðbrögð í jökullitnum. Tvíhenda er þægilegt verkfæri á svæði 2 í Blöndu, en ekki bráðnauðsynleg, þokkalegir kastarar geta auðveldlega látið einhenduna nægja.

Með veiðikveðju

Þorsteinn Hafþórsson og Stefán Páll Ágústsson