Blanda: 8 laxar á stöng á dag á sv.1

Eins og flestum er kunnugt þá er metveiði á vatnasvæði Blöndu í ár. Enn veiðist vel í ánni samkvæmt upplýsingum frá Vigni Björnssyni veiðiverði en hann tók saman veiðitölur á öllum svæðum eins og þær stóðu þann 12.ágúst síðastliðinn.

Svæði 1 (4 stangir): 2.285 laxar

Svæði 2 (4 stangir): 451 laxar

Svæði 3 (3 stangir): 439 laxar

Svæði 4 (3 stangir): 386 laxar

Þetta gera 3.561 lax og eins og sjá má eru fjórar stangir á svæði eitt með rúmlega 64% af veiddum löxum. Verður þetta að teljast eitt besta veiðisvæði landsins og miðað við veidda stangardaga þá er svæðið að gefa 8 laxa á stöng á dag.

Efri svæði Blöndu eru svo að skila góðri veiði og koma aflatölur þar eflaust mörgum á óvart. Skemmtilegt er að sjá að af þessum svæðum er svæði tvö aflahæst en þetta svæði hefur yfirleitt verið minnst stundað af veiðimönnum.

Það verður að minnast á yfirfall þegar rætt er um Blöndu í ágúst. Í venjulegu ári er vikan sem nú er að líða sá tími þar sem áin hefur farið á yfirfall, þó með einhverjum undantekningum.

Þegar litið er á vatnsstöðu Blöndulóns í dag eru fá merki um að yfirfall sé á næsta leiti en nú vantar rúma þrjá og hálfan metra í að lónið fyllist. Þó þarf að taka fram að ekkert er öruggt þegar kemur að veðurfari á Íslandi en líkurnar á að við sleppum við yfirfall á veiðitímabilinu er býsna góðar.