Af Silungsveiði

Þau eru fá, en vissulega skemmtileg silungsveiðisvæðin sem við bjóðum upp á.  Vel hefur kroppast upp á öllum svæðum í vor.

Vorveiðin í Blöndu var ekki mikið stunduð en við heyrðum af mönnum sem gerðu prýðilega veiði þar. Ólafur Tómas renndi sér í Blöndu og slakaði á land nokkurm urriðum auk þess sem hoplaxar hrukku á færið. Ólafur heldur úti skemmtilegum vef þar sem lesa má nánar um veiðiferðina: http://www.urridi.com/#!Blanda-Vorveiði/c1nni/553adb100cf23d01644d8ce3

Tungufljót hefur verið að gefa vel flestum sem þangað fara. Þó ber þess að geta að fljótið er mjög viðkvæmt og vandveitt. Þeir gera bestu veiðina sem læðast á staðina til að styggja ekki. Við höfum fregnir af urriðum allt upp í yfir 60cm og nokkrar bleikjur hafa slæðst með. Við eigum töluvert laust í Tungulfjót og þvi er um að gera að skella sér í fljótið. Meðlimir Vildarklúbbs Lax-Á fá leyfin á vildarkjörum eða á 3000 krónur stöngina.

Ásgarður er ávalt vinsæll og þangað fara sömu mennirnir í vorveiðina ár eftir ár. Enda er svæðið fallegt og húsið glæsilegt. Veiðinni hefur verið svolítið misskipt, sumir hafa núllað en aðrir hafa gert fyrirtaks veiði. Við heyrðum í mönnum sem veiddu vel nú nýlega ,bæði birting og bleikju og voru sáttir með sitt.

Nú fer loks að líða að laxveiðitíma og okkur hlakkar svakalega til. Við verðum öflug í fréttaflutningnum í sumar og tiboð verða send reglulega á meðlimi vildarklúbbsins okkar.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is