Varmá Vermir Veiðisál

Síðuritari og Simon Nilsson sem er búðarstjórinn okkar í Grænlandi og þjáist líka af veiðisýki á ólæknanlegu stigi skelltu sér í bæjarlækinn í Hveragerði – Varmá.

 Og sprænan kom á óvart, í Varmá sé stuð! Daginn sem við fórum voru allar stangir seldar og því reyndum við ekki einu sinni að fara í Stöðvarhylinn. Þess í stað ákváðum við að byrja við gömlu stíflu sem er svolítið neðar í ánni.

Strax í fyrsta kasti elti birtingur og aftur í því næsta og þarnæsta, en hann tók ekki. Við færðum okkur því örlítið neðar og bamm, hann var á. Enginn risi en skemmtilegur fiskur um kíló. Ekkert frekar gerðist á staðnum, við virtumst vera búnir að hræra nógu vel í þessu og kominn tími á annan stað.

Næst prófuðum við gömlu brúna sem er svotlítið fyrir neðan Stöðvarhylinn. Þetta er skemmtilegur og veiðilegur staður. Þarna var líf, við sáum nokkra birtinga undir brúnni og nokkru neðar í hylnum við beygjuna lá hlussubleikja. Auðvitað byrjuðum við að kasta á hana en hún hreyfði sig ekki og ekki sýndu birtingarnir við brúna neinu áhuga heldur

DSC_5068

Ég ákvað að reyna við bleikjuna enn einu sinni með pheasant tail andreymis. Eitt kast og búmm, hann var á. En þetta var ekki hlussan, þetta var systir hennar í minni kantinum. Hún tók nú samt skemmtilegar rokur og var sleppt bráðhressri aftur.

Eftir tvíréttaðan löns á hinu rómaða mathúsi N1 í Hveragerði ákváðum við að kíkja á fossinn sem liggur rétt við sundlaug bæjarins. Skemmst er frá því að segja að þar var ekkert líf, en á bakkanum voru nokkri fölir Hvergerðingar í sólbaði í nepjunni.

DSC_5136

Nú töldum við loks lag að prófa Stöðvarhylinn, það hlýtur að vera komið að okkur. Við renndum þangað niður eftir og mættum veiðmönnum á bakkanum. Þeir gerðu góðan róm að veiðinni, sögðu sögur af mokfiskeríi og þar af einni bleikju um tólf pundin. Þeir höfðu veitt nægju sína í hylnum og eftirlétu okkur svæðið.

Við veiddum okkur niður frá bílastæði en urðum ekki varir og sáum lítið líf, svo komum við að Stöðvarhylnum. Það voru kafbátar í hylnum! Ég sver það þessar bleikjuhlussur voru örugglega vel yfir 15 pundin sumar hverjar. Og þær voru ekki svona straumlínulagaðar eins og fiskar eiga að vera, þær voru meira svona eins og hálfblásinn sundbolti marandi í kafi.

Þær hreyfðu sig ekki, sama hvað við reyndum og við reyndum allt. En djö.. var gaman að sjá þær makindalega spæna í sig fóðri sem lak þarna úr rörinu. Spurning um að hnýta næst flugu sem er eins og appelsínugul fóðurkúla? Að lokum tók líklega minnsti fiskurinn í hylnum sig til og gleypti þurrfluguna okkar í yfirborðinu. Engin hlussubleikja en að sjá fisk taka þurrflugu er dásemdin ein.

Varmá kom okkur skemmtilega á óvart, líf víða og skemmtilegir flugustaðir. Við förum örugglega aftur.

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is