Tungufljót í Biskupstungum er á uppleið

Fyrir nokkrum árum gerði Lax-Á gangskör í því að gera Tungufljót í Biskupstungum að fyrirtaks laxveiðiá. Þetta hafði áður verið reynt en svo fallið frá áformunum þar sem árangurinn var ekki nógu góður.

Frá fyrri tíð var laxastigi í fossinum Faxa, hann var tekinn í gegn og endurbættur. Þetta ver gert annars vegar til að reyna að lengja veiðisvæðið og hins vegar til þess að koma fiski upp á svæði sem er hentugra til hrygningar. Tungufljót er köld á og lítið er um hentug svæði til hrygningar neðan við Faxa. En fyrir ofan fossinn eru betri búsvæði í hliðarám og því var áríðandi að opna leið þangað með það i huga að áin gæti verið sjálfri sér nóg að einhverju leyti.

Þegar stiginn var kominn í gagnið var svo hafist handa við að sleppa seiðum í ánna. Sett var upp sleppitjörn við Einholtslæk ofan Faxa árið 2003 og sleppt 5.000 sjógönguseiðum. Strax árið eftir veiddust laxar úr þessari sleppingu. Næstu ár var svo gefið í og árangurinn lét ekki á sér standa. Sumarið 2007 veiddust hátt í 600 laxar og sumarið 2008 veiddust 2854 laxar. Tungufljót var komið á kortið sem ein besta laxveiðiá landsins.

Síðan urðu aðstæður þess valdandi að sleppingum var hætt og um leið dró úr veiði, því eins og áður sagði er áin illa til þess fallin að standa undir mikilli seiðaframleiðslu, hún þarf aðstoð.

En viti menn, veiðin lagðist ekki alveg af og í sumar sem leið veiddust nokkrir tugir laxa og töluvert af bleikju, og það þrátt fyrir að áin væri afar illa ástunduð. Ánægja er að segja frá því að þrír laxar sem voru áætlaðir yfir 20 pund veiddust og þar af einn fyrir ofan Faxa. Það virðist því fara eftir sem við vonuðum að nokkur náttúruleg hrygning er nú í ánni.Rannsókn veiðimálastofnunar staðfesti það og mældist töluvert af seiðum fyrir ofan Faxa.

Okkur er sérstök ánægja að segja frá því að nú hefur aftur verið hafist handa við að sleppa seiðum í ánna og við búumst því við ennþá betri veiði næsta sumar. Verði veiðileyfa verður áfram stillt í hóf og því er hægt að gera góð kaup með því að skella sér í fljótið. Auk þess er áin gullfalleg og bráðskemmtileg fluguveiðiá.

Markmiðið er svo að í framtíðinni verði Tungufljót ein aflahæsta laxveiðiá landsins, hvorki meira né minna. Miðað við fyrri reynslu erum við vongóð um að það takist áður en langt um líður.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is