Tungufljót er ódýr laxveiðikostur

Fyrir þá veiðimenn sem eru að leita að budduvænum veiðikosti vildum við benda á Tungufljót í Biskupstungum.

Eins og við höfum ritað um er fljótið á uppleið, en verði veiðileyfa verður áfram stillt í hóf. Hér má lesa greinarstúf um fljótið í fortíð og framtíð: Tungufljót í Biskupstungum er á uppleið

Veiðin síðastliðið sumar var þokkaleg þó fljótið væri lítið stundað. Veiddust meðal annars þrír laxar yfir 20 pund og hátt hlutfall aflans var í vænni kantinum. Margar pattaralegar bleikjur veiddust að auki og gerðu þeir góða veiði sem sem sóttu sérstaklega á þau mið með agni sem gladdi þá bleiku. Hópur Breta sem var við ána í fjóra daga veiddi til að mynda yfir 40 bleikjur og reiting af laxi, þar af einn yfir 20 pund.

Eins og áður sagði er verði veiðileyfa stillt í hóf og stangarverð er á bilinu 13.000 – 24.500 á dag.

Við eigum von á enn betri veiði sumarið 2015 þegar sleppingar byrja að skila sér að hluta. Það er því ekkert að vanbúnaði að drífa sig í dagstúr í fljótið. Veiðivon er töluverð, verðið er hagstætt og fljótið er fagurt.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is