Þriðja besta veiði frá upphafi í Langadalsá

Laxveiðisumarið 2015 var með betri árum hér á landi en samkvæmt tölum frá Veiðimálastofnun voru heildarfjöldi stangveiddra laxa 74.000 talsins. Þetta gerir árið það fjórða besta frá upphafi mælinga. Í þessum árum falla alltaf einhver met og sáum við ellefu ársvæði, aðallega á Vestur- og Norðurlandi, setja ný met.

Það voru þó nokkur svæði nálægt gömlum aflametum og er eitt þeirra Langadalsá í Ísafjarðardjúpi. Veiðimálastofnun hefur síðastliðinn þrjú ár gert ítarlegar fiskirannsóknir í ánni með því markmiði að vakta breytingar á umhverfi, hrygningu og nýliðun fiskistofna. Nýlega barst skýrsla fyrir sumarið 2015 en munum við rýna í niðurstöður skýrslunar hér.

Í Langadalsá veiddust alls 453 laxar og var áin einungis 25 löxum frá sínu besta ári. Aflatölur reyndust vera þær þriðju besta frá upphafi veiðinýtingar en árin 2013 og 1972 hafa gert betur. Veiðin í ár fór hægt en fyrsti laxinn kom á land 6.júlí. Telst þetta vera nokkuð seint í ánni en orsakir þess má rekja til þess að veður síðastliði vor var þeim köldustu síðustu tuttugu ár. Besta veiðivikan 2015 var 13-19.ágúst er 88 laxar veiddust þá vikuna.

Smálaxagöngur hafa verið öflugar síðastliðinn tíu ár í ánni en í ár voru 88% stangveiddra laxa smálax. Tveggja ára lax er því 12% af heildarveiðinni en af honum voru 67% sleppt aftur, en í Langadal er sú regla að sleppa öllum laxi yfir 70sm. Aftur á móti skal taka fram á að smálaxi hefur verið sleppt í auknum mæli í ánni síðastliðinn áratug.

Hængar voru í meirihluta af veiðinni í ár og voru að meðaltali þyngri en hrygnur bæði hjá eins árs og tveggja ára laxi. Eins árs laxinn var að meðaltali 2,17kg og tveggja ára laxinn 5,06kg.

Frá árinu 20014 hefur laxveiðin í Langadalsá verið góð og meðalveiðin á þessu tímabili um 320 laxar. Aftur á móti ef litið er á tölur frá 1950 er meðalveiði í ánni 179 laxar. Eins og víða annarstaðar hafa miklar sveiflur einkennt síðustu ár og var veiðin slök 2012 og 2104 en 2013 og 2015 á hinn bóginn með þeim bestu í sögu laxveiðinýtingar í ánni.

Þessi yfirferð á skýrslu Veiðimálastofnunar er ekki tæmandi en margir áhugaverðir punktar komu fram. Við hjá Lax-á viljum hvetja veiðimenn til að aðstoða við rannsóknir í ánni með því að taka hreistursýni af veiddum löxum og ganga frá með tilheyrandi hætti en allar leiðbeiningar og tól má finna við aðgerðarborð í veiðihúsinu í Langadal.

Jóhann Torfi – johann@lax-a.is