Stóra Laxá þarf vatnsveður

 

Heyrst hefur af mönnum sem eiga leyfi í Stóru Laxá á næstunni, suðandi í ættingjum og vinum að taka með sér regndans. Sumir halda því jafnvel fram að dansleikur Justin Timberlake í gær hafi verið skipulagður af grjóthörðum Stóru- Laxár mönnum.

Af öllu gamni slepptu þá hefur verið rólegt í ánni undanfarið og ekki að ástæðulausu að menn bíða rigninga. Stóra er þekkt fyrir að hrökkva í gírinn þegar tekur að rigna hressilega síðla sumars. Þangað til það gerist er hægt að tala um kropp, en góð bleikjuveiði á svæði I-II hefur haldið mönnum við efnið.

Þann 20. ágúst voru komnir 153 laxar á land og var vikuveiðin 16 laxar. Til að átta sig á hvað þetta getur breyst fljótt er ágætt að líta á tölur síðasta árs. Þann 7. ágúst í fyrra höfðu veiðst 155 laxar og hafði þá verið rólegt fram eftir sumri. Síðan byrjar að rigna og þá fengu menn bingó bæði lárétt og lóðrétt og jafnvel allt spjaldið! Þann 21. ágúst 2013 höfðu veiðst í ánni 530 laxar eða 375 laxar á tveimur vikum. Veislan hélt svo áfram fram eftir hausti.

Miðað við ástandið á landinu ætlum við hreint ekki að halda fram að annað eins sé í vændum. En…Stóra er óutreiknanleg og við veiðimenn erum ávallt bjartsýnir.