Stóra Laxá er Hreppagullið

Stóra Laxá í Hreppum eða Hreppagullið líkt og sumir velunnarar kalla hana á sér sérstakan sess í hjarta margra veiðimanna. Stóra Laxá er Áin með stóru Ái í huga margra og þeir hinir sömu geta ekki hugsað sér sumar án þess að skreppa þangað.

Þegar veiðimenn spyrja mig um hvert þeir eigi að fara segi ég án hiks að þeir ættu að prófa Stóru. Áin er það fjölbreytt að það liggur við að hægt væri að veiða hana eina án þess að leiðast eina mínútu allt sumarið.

Snemmsumars er svæði fjögur sterkt en það geymir stofn stórra laxa sem flengir sér þangað upp eftir jafnvel strax í  júníbyrjun.  Þá er hreint ekki alvont að vera þar í fjallasal um hásumarið og kjást við silfurgljandi stórlax, sólin jafnvel speglast í tæru vatninu og í gljúfrinu krunkar Hrafn kanvíslega.

Svæði þrjú er þín persónulega paradís, tveggja stanga svæði með fyrirtaks fjallakofa þar sem þú getur gleymt stað og stund. Svæði þrjú er einna sterkast síðsumars.

Svæði 1&2 er þekkt fyrir gríðarlegar aflahrotur á haustin. Þá sópast inn til hrygningar heilu torfurnar af laxinum eftir að hafa dvalið í jökulvatninu. Það vilja allir veiðimenn vera á 1&2 þegar veislan byrjar. Það er bara þannig.

Almennt er haustið tími Stóru Laxár. Þá færist líf í alla ána sem um munar. En sumarið er líka tíminn, það er allur tími sem veiða má Stóru Laxár tími. Ef þú hefur ekki prófað þá skora ég á þig. Þú munt fara aftur og aftur.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is