Nú verða sagðar laxveiðifréttir

Blanda er dottin í súpergír á svæði I og dagarnir hafa verið að gefa hátt í 30 laxa, mest er þetta enn vel haldinn tveggja ára fiskur en smálaxinn er farinn að sýna sig.

 Öll efri svæði hafa nú gefið fisk og við heyrðum af einum degi á svæði 2 sem gaf 7 laxa. Veiðimenn á Blöndu fjögur lönduðu fjórum löxum einn daginn, þar af var einn lúsugur smálax.

Sogið er ekki enn dottið almennilega í gang en við bindum vonir við að það horfi til betri vegar. Enn hefur ekki veiðst lax í Ásgarði en einn kominn á land í Syðri Brú.

Árnar okkar við djúp eru í flóðvatni og ekkert hefur heyrst af aflabrögðum hingað til. Þaðan fáum við vonandi betri fréttir þegar vatn fer að sjatna.

Sömu sögu er að segja af Stóru Laxá, hún er gríðarlega vatnsmikil og illveiðanleg hingað til. Vatnhæð er þó samkvæmt mælum tekin að minnka.

Í Eystri Rangá hefur kroppast upp, áin er mjög vatnsmikil en ekki lituð samkvæmt síðustu fréttum. Mest  allt er þetta vel haldinn stórlax hingað til.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is