Mótmælum laxeldi við Ísafjarðardjúp

Við hjá Lax-Á mótmælum harðlega hugmyndum um laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Á svæðinu eru ákaflega góðar laxveiðiár sem gæti verið mikil hætta búin verði laxeldi leyft á svæðinu.  Við tökum heilshugar undir eftirfarandi tilkynningu frá Landssambandi veiðifélaga:

Landssamband Veiðifélaga skorar á Hraðfrystihúsið Gunnvör að hætta við áform um sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi. Landssamband veiðifélaga hefur sent HG Ísafirði harðort bréf þar sem skorað er á fyrirtækið að láta af áformum um sjókvíaeldi norskra laxa í Ísafjarðardjúpi. Bréfið er sent í tilefni þess að HG hefur auglýst drög að matsáætlun fyrir 6800 tonna laxeldi á sex svæðum í Djúpinu. Í bréfi Landssambandsins kemur fram að Landssambandið muni leitast við eftir fremsta megni að stöðva fyrirhugaða framkvæmd eldis norskra laxa á öllum stigum málsins og leita atbeina dómstóla til að hnekkja útgáfu eldisleyfis ef svo ber undir. Þá furðar Landssambandið sig á að Hraðfrystihúsið Gunnvör skuli hafa flutt sjókvíaeldið í óburðugt einkahlutafélag, Háfell ehf í eigu HG. Telur Landssambandið að með þessu sé Hraðfrystihúsið Gunnvör að skjóta sér undan skaðabótaskyldu vegna umhverfistjóns sem starfsemin muni valda í nærliggjandi laxveiðiám. Jón Helgi Björnsson formaður LV segir málatilbúnað fyrirtækisins gallaðan þar sem HG er skráður framkvæmdaraðili í matsferlinu en starfsemin sé í rauninni hjá öðrum lögaðila, Háfelli ehf. Hann segir HG hafa stundað blekkingaleik þegar fyrirtækið sótti um leyfi til að ala regnboga en ætlunin hafi svo verið að fá þessum leyfum breytt í laxeldisleyfi. Hann segir að Landssamband veiðifélaga muni skjóta þessu máli til dómstóla verði gefið út leyfi til eldisins enda sé eldi norskra laxa við ósa laxveiðiáa gróft brot stjórnvalda á samkomulagi hagsmunaaðila og landbúnaðarráðuneytisins frá 1988 um að aðeins skyldi leyfa eldi á norskum laxi í landstöðvum. Vakin hefur verið athygli Skipulagsstofnunar á málinu.

Nánari upplýsingar gefur formaður LV, Jón Helgi Björnsson í síma; 893 3778  

Fréttatilkynning LV