Maríulaxinn

Síðuritari skrapp í veiði um liðna helgi. Ekki var veðurútlitið gott og ég hefði helst af öllu viljað bíða af mér mesta hríðarhaglandann og fá mér meira kaffi og gott ef ekki með því. En nú var ekki því að heilsa því ég hafði lofað fimm ára syni mínum að við skyldum fara að veiða lax. Og hann var ekkert að gefa gamla manninum neinn afslátt á því, út skyldi farið.

Veðrinu mætti lýsa sem svona ísslyddurigningarúrhelli, og bálhvasst ofan í kaupið. Við höfðum þann háttinn á að veiða í stutta stund en hvíla okkur svo í bílnum í lengri tíma á eftir. Maður minn, það var kalt og það var hvasst og það var volk.

Maður hefði kannski látið sig hafa það ef veiðin hefði verð góð. En það var allt dautt, engin taka í kuldanum.

En sá stutti var ekki á því að hætta: „fjórir í enn“ heyrðist úr baksætinu. Hann vildi að við reyndum fjóra staði í viðbót þegar ég uppgefinn stakk upp á einum og svo í hús.

Kannski fann hann eitthvað á sér því eftir árangurslausar en blautar tilraunir á þremur stöðum var komið að þeim fjórða. Pabbinn kastaði fyrst af því hann treysti þeim stutta ekki til að kasta upp í óveðrið sem stóð beint á bakkann. Ekkert, ekki högg, ekki branda bara rok.

„Jæja, nú förum við heim“ sagði veðurbarinn hrollkaldur pabbinn. En sonurinn var ekki á því og heimtaði líka að kasta. Ég fékk honum kaststöngina og fylgdist með honum með stolti, hann var orðinn assgoti góður í að kasta agninu og halda stönginni rétt og það í brjáluðum mótvindi.

Eftir nokkur köst, kallaði drengurinn að allt væri fast og ég tók við stönginni til að losa. Eftir einn kipp fór festan af stað og ég ýki lítið þegar ég segi að það söng í hjólinu. Þarna var eitthvað undir og það í stærra lagi. Efti að hafa rétt náð að lempa fiskinn í sameiningu var komið að löndun. Okkur tókst að landa fiskinum og setja hann í þar til gert klakveiðibúr. Ekki er ofsögum sagt að sonur minn brosti út af eyrum og var ekkert lítið ánægður með sig. Enda mátti hann alveg vera það, þeir veiða sem nenna!

Við fórum þvínæst heim í hús og sagðar voru veiðisögur langt fram eftir kvöldi. Sá stutti gat ekki beðið með að fara aftur að veiða.

Daginn eftir fórum við svo í betra veðri og tókum mynd af fiskinum. Eins og sjá má á myndinni stóð stórveiðimanninum svolítill uggur af þessum kjaftstóra hæng.