Litið um öxl – gleðilegt ár

Um áramót er við hæfi að líta um öxl. Og þó, sumir vilja helst ekkert tala um veiðina í sumar. Verður 2014 og 15 eins og árin 2012 og 13 þegar veiðin var arfaslök það fyrra og metveiði á landinu það síðara? Þá eigum við von á fjöri næsta sumar!

Árið var langt því frá einhver hörmung, það fengu margir fisk, og góðar veiðisögur urðu til. Hér er ein góð frá Blöndu um menn sem settu í veski á Sunray Shadow: Skemmtileg uppákoma við Blöndu

Og talandi um Blöndu, þá muldrar ekki nokkur maður um veiðileysi í þeirri ágætu á í sumar enda var hún skrambi góð. Það sama má segja um margar ár þar um slóðir, Laxá á Ásum var í feikna formi og jafnvel Halláin okkar litla sæta var í ágætri meðalveiði.

Annars var þessu misskipt, sumar ár héldu sínu á meðan aðrar voru slakar. Það er víst aldrei á vísan að róa í þessum efnum.

Skemmtilegustu túrnarnir sem síðuritari man eftir eru einmitt þeir þar sem við litlu var búist fyrirfram og svo var bara bullandi veiði og hamingja eftir því. Við fengum skemmtilega frásögn af slíkum túr í Miðdalsá í sumar: Ævintýri í Miðdalsá

Einn af ljósu punktum sumarsins er hve vel veiddist víðast hvar af tveggja ára laxi. Í Stóru Laxá lentu menn í veislu í haust og þá var meðallengdin ekkert slor: Stuðið er hafið í Stóru Laxá

Starfsfólk Lax-Á þakkar ykkur samfylgdina í gegnum árið og við erum handviss um að allar ár verða fullar af fiski á næsta ári.

það eru bara 157 dagar þangað til Blanda opnar aftur – Gleðilegt veiðiár!