Laxveiðifréttir að norðan

Ágætlega hefur gengið í Blöndu og nú er smálaxinn farinn að sýna sig á svæði eitt. Í gær komu 21 lax á land og 19 laxar í fyrradag, það eru fimm laxar á stöng á dag sem er líklega besta veiðin á landinu. Og þó svo að smálaxinn sé farinn að sýna sig þá er þetta enn stórlax í miklum meirihluta.

Efri svæðin eru líka farin að sýna lit og hafa nú veiðst fiskar á öllum svæðum. Ástundun hefur verið lítil þar efra nú í upphafi tímabils en samt hafa komið á land nokkrir laxar á öllum svæðum. Við sögðum ykkur fréttir af feikigóðri veiði sem félagarnir Sverrir Rúnarsson og Sigurjón Magnússon gerðu í Svarthyl á svæði tvö. Þeir náðu sitthvorum drekanum. 91cm og 96cm, ekki slæm veiði það.

Úr Hallá hefur verið kropp hingað til,nokkrir laxar komnir á land og nokkrir misstir. Við heyrðum af veiðimanni sem fór léttvopnaður í ósinn til að reyna við silung, hann setti í tvo ágæta laxa sem slitu báðir og kvöddu með silungafluguna í kjaftinum – lengi er von á laxi í laxveiðiá.

Við minnum á Vildarklúbbinn okkar. Við munum senda glóðvolgt fréttabréf á morgun með nýjum tilboðum í veiði.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is