Laxveiðifréttir

Gisli_i_Svarta(1)

Hallá er í góðu geymi en hún nálgast 50 laxa múrinn samkvæmt veiðimönnum sem voru að klára sinn túr. Þeir fengu tvo smálaxa  í gljúfrunum, annan í neðsta hyl og annan rétt fyrir ofan fossa. Þeir misstu nokkra dreka og sáu töluvert af fiski í Kjalarlandsfossum og eitthvað sáu þeir uppi á dal.

Hróarslækur er hrokkinn í gang, en við ræddum við veiðimenn sem voru að koma þaðan. Þeir urðu varir við fisk á nokkrum stöðum en tókst ekki að landa neinum. Þeir sögðust hafa séð fisk í númer 16 og á milli brúa. Einn fiskur var skráður í bókina en ekki er víst að það sé allur aflinn þar sem skráningu hefur verið ábótavant.

Hvannadalsá er öll að koma til og loks er vatn tekið að sjatna örlítið þó ekki sé hægt að tala um eðlilegt ástand enn. Í ánni hafa veiðst hátt í 20 fiskar,flestir rígvænir vestfirðingar.

Við Heyrðum í veiðimönnum sem voru að koma úr Langadalsá og fengu þeir 12 laxa og tvær bleikjur í túrnum. Mest alllur laxinn í Langadalsá er stórlax sem fær frelsi aftur og er því enn svamlandi i ánni. Langadalsá er komin í um 40 laxa.

Tannastaðatangi hefur verið dapur og ekki höfum við staðfestar fréttir af neinni laxveiði á svæðinu. Þetta hlýtur að fara að koma!

Við heyrðum loks af fiski í Miðdalsá, en í morgun kom á land grálúsugur smálax. Hann er því nýmættur og vonandi verður framhald á.

Blanda öll er sem fyrr í fínum málum og Svæði 1 var komið í 1027 laxa í dag og er þar með fyrsta svæðið á landinu til að rjúfa 1000 laxa múrinn.  Veiði er líka tekin að glæðast á efri svæðum og fiskur sem víðast.

Í Svartá er reytingsveiði og eitthvað að skila sér á hverjum degi. Hann Gísli fékk maríulaxinn sinn í Svartá í morgun og var rífandi glaður eins og sjá má á meðfylgjndi mynd.