Laxveiðar í Dee

Eins og sumir hafa líklegast heyrt var veiðin í Dee í Skotlandi á síðasta ári ekkert til að hrópa húrra fyrir. En í ár virðist hún vera  að bæta sig  sem er sérstakt ánægjuefni.

Við hjá Lax-Á berum taugar til Dee en þar höfum við haft svæði á leigu um árabil. Þegar best lét var öll áin að skila yfir 9000 laxa veði á ári og svæðið okkar „Lower Crathes“ hefur yfirleitt verið það besta í ánni.

Síðustu ár var veiðin ekki sem best verður á kosið og var 2015 magrasta árið í ánni til margra ára. En nú virðist áin vera að koma til og fyrstu mánuðir þessa árs sýna svo ekki verðum um villst ágæta bætingu milli ára.  Það er sérstakt gleðiefni fyrir alla áhugamenn um laxveiðar.

Það er nefnilega afskaplega skemmtilegt að bregða sér yfir pollinn og þenja köstin í sögufrægri skoskri á. Tímabilið í Skotlandi er langt og þar er hægt að setja í lúsugan nýrenning þegar árnar hér á Fróni eru enn ísilagðar.

Nú er Icelandair farið að bjóða upp á beint flug til Aberdeen og þaðan er stuttur akstur að veiðistað. Ef áhugi er fyrir hendi getum við hjá Lax-Á verið innan handar um að skipuleggja slíka ferð fyrir vini eða hópa.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is