Bleikjuveiði á Grænlandi – 80 fiska dagur.

Lax-á hefur síðan 2012 boðið uppá ferðir til Grænlands í bleikju- sem og hreindýraveiði. Á einungis nokkrum árum hafa þessar ferðir orðnar afar eftirsóttar enda einstök upplifun að veiða á þessari stærstu eyju heims.

Það sem búast má við í bleikjuveiðinni eru mörg veiðisvæði, stuttar þröngar ár sem og vatnaveiði seinnihluta tímabilsins. Veiðitölur eru ekki á verri endanum en búast má við lágmark þrjátíu fiskum á dag og skiptir þá ekki máli hvort veitt er á flugu eða spún.

Stærð bleikjunar er í kringum 2-3 pund en alltaf veiðast stærri fiskar. Sú stærsta sem höfundur hefur veitt var í kringum átta pund, en hann hefur sótt Grænland undanfarin ár sérstaklega til að stunda þessa veiði.

Algeng stærð á bleikju í Grænlandi

Algeng stærð á bleikju í Grænlandi

Ferðin í ár var farin um miðjan ágúst en hún var frábrugðin síðustu veiðiferðum að því leiti að lítið sem ekkert hafði rignt á svæðinu í júlí og fyrrihluta ágúst. Eins og glöggir menn vita að þá hefur þetta rigningarleysi áhrif á vatnsmagn og því voru nokkur svæði illviðráðanleg vegna vatnsleysis.

Ef einhverjum dettur í hug að þetta vatnsleysi hafi haft áhrif á veiðitölur þá mun það ekki vera rétt. Helsti munurinn var sá að annaðhvort var verið að veiða silfraða bleikju í árósnum eða bleik- appelsínugula bleikju í litlum stöðuvötnum sem höfðum myndast. Í þetta skipti voru veiðitölur í lok hvers dags nær áttatíu fiskum en höfundur hætti að telja eftir fyrstu tuttugu fiskana.

Þessi veiðiferð var einnig sérstök að því leiti að flugurnar sem voru að virka voru ekki margar. Yfirleitt virka litirnir, bleikt, svart, hvítt, bleikt, grænt, silfur eða einhverjar samsetningar af þessum litum. Svampflugur hafa einnig oft gert góða lukku og með eindæmum skemmtilegt að fá yfirborðstökur á þessar flugur.

Fallega bleikja sem féll fyrir umtalaðri bleikri straumflugu

Fallega bleikja sem féll fyrir umtalaðri bleikri straumflugu

En í þessari ferð var einn litur sem virkaði í einni útfærslu, bleikar straumflugur með keiluhaus. Stærðin virtist ekki skipta máli heldur einungis að hún væri bleik og koma henni niður.

Dagarnir í Grænlandi eru langir og er lagt af stað snemma á morgnanna og heimkoma yfirleitt um kvöldmatarleytið. Gestir fá alltaf nesti með sér en einnig getur verið góð stemning að elda bleikju á veiðislóðum ef veður leyfir. Þó skal taka fram að veiðimenn verða að hafa með sér einn eða tvo fiska til að útbúa bleikju sashimi í þegar heim er komið. Forrétirnir gerast varla betri.

Jóhann Torfi – johann@lax-a.is