Blanda Rokkar!

Okkur leiðist ekki að færa ykkur fréttir af Blöndu enda er veiðin þar ævintýri líkust þessa dagana.

Svæði eitt er líklega með einna bestu veiði á landinu sé miðað við stangarfjölda, við heyrðum af tveggja daga holli sem var með 100 laxa á stangirnar fjórar. Blanda er nú komin vel yfir 600 laxa.

Efri svæði hafa líka verið að gefa afskaplega vel og margir sem hafa keypt leyfi í gegn um Vildarklúbbinn okkar á afar hagstæðu verði hafa fengið mikið fyrir peninginn.

Við heyrðum í einum sem fékk fimm laxa á einum degi á svæði þrjú, þar af komu þrír í beit upp úr Lynghólma og er skemmtileg saga á bakvið það:

Feðgar voru þar á ferð og voru tveir þeirra enn að setja saman við bakkann þegar sá sem fyrstur byrjaði hafði sett í lax. Landaði hann skömmu seinna 10 punda hrygnu. Þeir sáu svo fisk bylta sér í ánni og köstuðu á hann. Hann elti en náði ekki. Aftur var kastað og í þetta sinn var neglt og allt varð vitlaust.

Efri mynd: Róbert. Neðri mynd: Höskuldur 

Klukkutíma síðar og laaangt fyrir neðan tökustaðinn var 94cm 8,4 kg laxi landað. En þetta var ekki búið, þeir settu strax í og lönduðu öðrum fiski um 11 pund.

Annar maður, Hermann að nafni keypti eina stöng á svæði þrjú á morgunvakt í dag. Eftirtekjan varð þrír stórlaxar. Það er ekki slæm veiði á einum morgni.

Og svona eru sögurnar margar úr Blöndu þessa daga, rífandi hamingja og stuð.

Veiðikveðja – Jóhann  Davíð – jds@lax-a.is