Ásgarður fær andlitslyftingu

Veiðihúsið við Ásgarð stendur á svonefndum Gíbraltarhöfða með ákaflega fallegu útsýni yfir Sogið. Gróðurfar á höfðanum er hreint ákaflega gróskumikið. Það var orðin það mikil gróska í gróðrinum að hann byrgði mönnum sýn á pallinum góða, menn sáu ekki Sogið fyrir trjánum.

Hraustir menn frá Lax-á réðust því í það verkefni að grisja í kring um húsið og einnig göngustíginn niður í Gíbraltar. Nú er hægt að virða fyrir sér Sogið í allri sinni dýrð í sumar, auk þess er hægt að komast að ánni frá húsinu án þess að hafa sveðju meðferðis.

Á næstunni stendur svo til að taka húsið í gegn að innan. Menn geta því farið að hlakka til dvalarinnar í sumar, bæði úti og inni.