Af Stóru Laxá

Veiðin í Stóru Laxá hefur verið nokkuð misskipt eftir svæðum í sumar. Á svæði fjögur hefur gengið mjög vel og erum við að sjá bestu tölur þaðan um áraraðir.  Neðri svæði hafa ekki verið í jafn góðum gír nema hvað opnunin var fljúgandi flott og sú langbesta  sem sögur fara af. Síðan gerðist það líkt og víða að veiðin datt niður um miðbik sumars, það vantaði einfaldlega göngur.

En haustið er tími Stóru Laxá, tja nema þegar rignir ekki. Svæði eitt og tvö gefa vanalega hrikalegar aflahrotur síðsumars þegar laxinn leggur á hrygningarstöðvar úr Hvítá. En til þess þarf rigningu sem hefur sárlega vantað í sumar. Eitthvað hefur seitlað af himnum undanfarið svo við búumst við tíðindum af Stóru eitt, tvö og þrjú.

En við höfum tíðindi af Stóru 4. Flestir sem þangað sækja virðast ná að tína upp lax og lax og jafnvel slæðist með einn og einn sjóbirtingur líka. Snævarr Örn var að koma af svæðinu og sendi okkur smá pistil um veiðina og meðfylgjandi mynd:

Var að koma úr Stóru Laxá IV og þetta var frábær ferð, kærar þakkir. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir.

Það var nóg af fiski á svæðinu, ég setti sjálfur í 5 fiska og reisti nokkra til viðbótar. Varð var við laxa í

Neðsta Heimahyl, Hundastapa, Myrkhyl, Hólmabreiðu, Klauf, Kálf, Austurkvísl og Ármótum. Landaði

tveim löxum og tveim sjóbirtingum til viðbótar. Birtingarnir komu úr Speglinum og Kálf.

Flestir fiskarnir voru vel legnir utan við nokkuð nýlegan smálax úr Austurkvísl.

 

Veiðikveðja

 

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is