Af Hallá

Það verður seint sagt að Hallá hafi byrjað tímabilið af krafti en hún kom þó til síðla sumars. Menn voru að kroppa úr ánni fisk og fisk fram í miðjan júlí en svo kom fyrsta gangan af krafti.

Magnús Þorvaldsson hefur veitt í ánni til fjölda ára og yfileitt gert fína veiði. Hann mætti í ána ásamt föruneyti síðla í júlí og gerði hörkuveiði. Þeir lentu á fyrstu stóru göngunni og sáu tökuglaðan fisk víða. Með þessari frétt er mynd af Þóru Þorgeirsdóttur með tvo af löxunum tólf sem hollið dróg á land.

Gunnar Leósson var svo á ferðinni í ánni 5-7 ágúst og gerði hann þetta líka fína mót, hollið tók 13 laxa. Gunnar tjáði okkur líka að flóðin í vor hefðu breytt ánni töluvert á efri svæðum. Nú væru staðir sem hefðu oft gefið vel hreinlega horfnir. Það eru líka greinileg vegsumerki um stórflóð í ánni í gljúfrunum neðantil þar sem moldardrulla er á öllum klettum langt fyrir ofan eðililegan farveg árinnar.

Hallá er um þessar mundir að nálgast 60 laxa, ætli hún endi ekki í meðaltalsveiði sem er um 100 laxar.

Veiðikveðja

Jóhann Davíð – jds@lax-a.is