Af Blöndu og Svartá

Blanda_4_-_lax_a

Ágætlega hefur gengið í Blöndu í sumar og er heildartalan komin í yfir 1800 laxa. Við búumst fastlega við því að áin sigli yfir 2000 laxa markið áður en sumarið er á enda.

Blanda er ekki enn komin á yfirfall, við heyrðum að Landsvirkjun ætli að halda henni frá yfirfalli í lengstu lög. Það gera þeir með því að botnkeyra vélarnar þar efra og nýta þannig vatnavexti jafnóðum. Áin hefur tekið nokkurn lit á neðri svæðum vegna þessa, mest á svæði þrjú. Svæði fjögur er blátært enn og veiðin góð eftir því.

Við heyrðum í veiðimönnum sem voru komnir með 30 laxa eftir eina og hálfa vakt á svæði fjögur. Þetta voru fiskar upp í 84 cm en mest smálax, sumir jafnvel lúsugir. Öll áin er inni en mest veiddu þeir í Krók og í Þröm. Heildartalan á fjögur er um 350 laxar.

Á Svæðum tvö og þrjú hefur verið kropp undanfarið, við heyrðum í veiðimanni sem missti lax í Skurði á þrjú í gær og menn í gæsaveiði sáu laxa stökkva á svæði tvö. Þessi svæði geyma enn töluvert af fiski en það getur reynt á veiðimenn að ná þeim þegar litur er kominn á vatnið.

Á svæði eitt eru göngur farnar að dala þó enn bætist nýr fiskur í hópinn, menn eru að fá hann en vissulega hefur veiðin daprast er nær dregur hausti.

Svartá hefur verið í fínu formi og síðasta holl tók 27 laxa á þremur dögum. Að sögn er fiskur víða og ágætis taka svo lengi sem menn eru ekki að slengja túbuhlussum í hylina. Þannig ná menn kannski einum en svo er hylurinn ónýtur það sem eftir lifir vaktar. Stærðin skiptir máli!